92 hagræðingar- og umbótatillögur

Fjármál

Yfirlitsmynd yfir Reykjavík úr vestri yfir höfnina.

Borgarráð samþykkti í dag að vísa til borgarstjórnar 92 tillögum meirihlutaflokka Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar um hagræðingu í rekstri borgarinnar á næsta ári upp á vel á annan milljarð króna. Áfram er gert ráð fyrir fullri fjármögnun á framlínuþjónustu.

Þetta er í samræmi við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 sem kynnt var í byrjun nóvember. Þar kom fram að áhrif heimsfaraldurs, hækkandi verðbólga og vanfjármögnun frá ríkinu á rekstri málaflokks fatlaðs fólks hefði neikvæð áhrif á reksturinn og að ráðist yrði í aðhaldsaðgerðir.

Tillögurnar sem samþykktar voru í dag eru nánari útfærsla á aðgerðaáætlun um samdrátt í rekstrarkostnaði upp á að minnsta kosti einn milljarð króna sem kynnt var í fjárhagsáætlun. Þær koma til viðbótar ákvörðun um að draga saman í fjárfestingaráætlun, almennu aðhaldi í rekstri og að ekki verði ráðið í stöður sem losna nema brýn nauðsyn sé til. Aðgerðir í ráðningamálum eiga þó ekki við störf í framlínu, svo sem í skóla- og frístundaþjónustu og velferðarþjónustu. Óskað var eftir hugmyndum úr öllum málaflokkum um hvar mætti gera þjónustu skilvirkari og auka hagkvæmni í rekstri og eru þessar tillögur afrakstur þeirrar vinnu.

„Stöndum vörð um framlínuþjónustu og viðkvæma hópa”

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir þessar tillögur endurspegla þá stöðu sem sveitarfélög um land allt glími við eftir kórónuveirufaraldurinn. Viðbrögðin séu eðlileg og í samræmi við trausta fjármálastjórn. “Við erum búin að liggja töluvert yfir þessu undanfarnar vikur og þetta er afraksturinn, 92 skynsamlegar hagræðingartillögur og umbótaverkefni þar sem við stöndum vörð um framlínuþjónustu og viðkvæma hópa. Reykjavíkurborg hefur alltaf lagt sig fram um að vera snögg að bregðast við ytri aðstæðum og þetta er hluti af því. Borgin mun vaxa út úr þeim vanda sem sveitarfélögin eru að glíma við en um leið er mikilvægt að ríkið leiðrétti framlög í stórum málaflokkum þar sem lagaskyldur eru langt umfram þau framlög sem sveitarfélögunum eru tryggð.”

Við erum búin að liggja töluvert yfir þessu undanfarnar vikur og þetta er afraksturinn, 92 skynsamlegar hagræðingartillögur og umbótaverkefni þar sem við stöndum vörð um framlínuþjónustu og viðkvæma hópa.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

Samanlagt munu tillögur um hagræðingu draga úr útgjöldum sem nemur á annan milljarð króna en þar er einnig að finna hugmyndir að frekari umbótum sem fara í nánari rýningu og skoðun og gætu leitt til frekari sparnaðar. Stefnt er að því að rekstrarniðurstaða úr A-hluta verði orðin jákvæð frá og með árinu 2024 í samræmi við fjármálastefnu til næstu fimm ára. Stefnan byggir á grunngildum um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu, fyrirsjáanleika og gagnsæi í samræmi við lög um opinber fjármál.

Þessar breytingatillögur frá meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar verða lagðar fyrir borgarstjórnarfund næstkomandi þriðjudag þar sem fram fara seinni umræður um fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir 2023.