400 viðburðir á Menningarnótt

Bríet á Menningarnótt 2022

Stærsta afmælis- og borgarhátíð Reykjavíkur, Menningarnótt, verður haldin laugardaginn 19. ágúst. Mikill undirbúningur liggur að baki skipulagningu Menningarnætur.

400 viðburðir eru á dagskránni sem íbúar, listamenn, veitinga- og verslunareigendur auk menningarstofnana bjóða upp á. Huga þarf að öryggis- og aðgangsmálum, lokunum og umhirðu borgarlandsins svo eitthvað sé nefnt. Ætla má að um 100 starfsmenn Reykjavíkurborgar auk verktaka hafi unnið við að koma fyrir 200 keilum, 350 mismunandi upplýsingaskiltum og 60 lokunum. Lögregla og viðbragðsaðilar munu svo sjá til þess að allt fari vel fram.

Hátíðarsvæði Menningarnætur

Í samráði við Lögregluna á Höfuðborgarsvæðinu verður hluti miðborgarinnar ekki ætlaður akandi umferð til að tryggja öryggi gesta Menningarnætur.

Kort af hátíðarsvæðinu sýnir það svæði sem verður lokað fyrir akandi umferð. Engar undantekningar verða gerðar. Lokanir taka gildi frá kl. 07.00 að morgni laugardagsins 19. ágúst og standa til kl. 01.00 eftir miðnætti.

Bílastæði

Takmarkað magn af bílastæðum verður í boði í miðborginni á Menningarnótt. Hægt er  að leggja í eftirfarandi bílastæðahús; í Ráðhúsinu, Vesturgötu, Vitatorgi, Stjörnuporti og Höfðatorgi. Aðgengi að bílastæðakjallara Hörpu verður frá kl. 14.00–21.00. Bílastæðahúsunum Traðarkoti og Kolaporti er lokað á Menningarnótt. Venjulegt gjald gildir.

Ókeypis skutlur á hátíðarsvæðið

Fyrir þau sem vilja komast beint á hátíðarsvæðið á Menningarnótt þá er tilvalið að leggja bílnum í Laugardal og í Borgartúni og taka svo ókeypis skutlu í miðborgina. Strætóskutlur aka til og frá bílastæðum við Laugardalshöll um Borgartún að Hallgrímskirkju með viðkomu á Hlemmi frá kl. 07.30–01.00.

Virðum íbúa miðborgarinnar og leggjum ekki í einkabílastæði eða skerðum aðgengi að innkeyrslum íbúa.

Munum að umferðalögin gilda alla daga ársins! Lögreglan mun sekta þá sem leggja ólöglega. Ökutækjum sem lagt er ólöglega og/eða hindra aðgengi lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutningamanna verða flutt burt og vistuð hjá Vöku. Er það gert til þess að tryggja aðgengi öryggisaðila ef slys ber að garði.

Leggðu fjær til að komast nær!

Bílastæði fyrir fatlað fólk

Bílastæði fyrir fatlað fólk eru staðsett á eftirfarandi stöðum:

  • Skúlagötu, vestan við Olís, sérstakt svæði sem eingöngu verður nýtt undir bílastæði fyrir P merkta bíla. Stæðið verður vaktað.
  • Við Tækniskólann
  • Í eftirfarandi bílastæðahúsum eru sérmerkt bílastæði fyrir fatlað fólk
    • Ráðhúsi (eftir kl. 16.00)
    • Vesturgötu
    • Vitatorgi
    • Stjörnuporti
    • Hörpu (aðgengi frá kl. 14.00 - 21.00)

Pant akstursþjónusta fatlaðs fólks

Hægt er að panta akstur á vefnum eða í síma 540 2727.

Akstur er frá kl. 07.30–01.00
Seinasta ferð er kl. 01.00

Reiðhjól

Það er alltaf mælt með því að nýta hjólið til að koma í miðborgina á Menningarnótt ef fólk hefur tök á því. En það getur verið erfitt að hjóla um í mannmergð og hvatt er því til að læsa hjólin við einhverja af þeim fjölda reiðhjólagrinda sem eru á víð og dreif um miðborgina, meðal annars hjá Austurbæjarskóla, hjá Hörpu tónlistarhúsi, í Pósthússtræti, á Lækjartorgi, í Hafnarstræti og við Tækniskólann svo eitthvað sé nefnt.

Staðsetning hjólastæða í miðborginni

Strætó

Vakin er athygli á því að á Menningarnótt þurfa farþegar sem ætla að taka strætó niður í bæ að borga almennt fargjald. Frítt er með skutlum sem aka til og frá bílastæðum við Laugardalshöll um Borgartún að Hallgrímskirkju með viðkomu á Hlemmi frá kl. 07.30–01.00.

Klukkan 22.30 verður leiðakerfi Strætó rofið og öllum tiltækum vögnum beint að Sólfarinu við Sæbraut. Frítt er í vagnana og keyrt í öll hverfi. Næturstrætó tekur svo við klukkan 1.00 og þá þarf að borga næturgjald.

Strætó á Menningarnótt

 

Rafskútur

Fólk er eindregið hvatt til að nýta sér rafskútur sem eru vistvænn samgöngumáti til að komast til og frá miðborginni á Menningarnótt.  . Hátíðin er fyrir alla borgarbúa og gesti sem vilja taka þátt í hátíðinni og skemmta sér. Mælt er með því að gestir komi á hátíðarsvæðið fótgangandi, á hjóli eða nýti sér almenningssamgöngur. Eins og fyrr er lögð áhersla á að fjölskyldan njóti Menningarnætur saman - komi saman í bæinn og fari saman heim eftir flugeldasýninguna.

Í samráði við rafskútufyrirtækin verður hámarkshraði rafskútanna lækkaður í miðborginni á Menningarnótt, auk þess sem aðeins verður hægt að enda ferðir og hefja ferðir á ákveðnum stæðum í miðborginni.         

Rafskútustæðin verða á eftirfarandi svæðum: 

  • Tjarnargötu 4 (Bílastæði við Happdrætti Háskóla Íslands) 
  • BSÍ 
  • Skúlagötu  
  • Vörðuskóla v/ Barónsstíg 
  • Háskóla Íslands

Gleðilega Menningarnótt!

Dagskrá á menningarnott.is