332 íbúðir munu rísa á Gelgjutanga í Vogabyggð

Framkvæmdir Skipulagsmál

""

Uppbygging í Vogabyggð 1 á fullan skrið þar sem skrifað var undir samninga um byggingu 332 íbúða á svæðinu í dag.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og fasteignafélagið Festir ehf. undirrituðu í dag samning um uppbyggingu 332 íbúða á Gelgjutanga. Í síðustu viku samþykkti borgarráð þrjá samninga sem tengjast fyrirhugaðri uppbyggingu á þessu svæði í Vogabyggð.

Í samningunum er Vogabyggð 1 skipt upp í fimm  lóðir samkæmt deiliskipulagstillögu sem er í vinnslu. Samningarnir þrír kveða á um uppbyggingu á svæði 1 á Gelgjutanga en á því svæði verða byggð fimm fjölbýlishús. Áætlað er að 332 íbúðir rísi á lóðunum.

Samkvæmt samningi við Festir ehf. sem aðilar skrifuðu undir í dag mun Reykjavíkurborg fá tvær lóðir til ráðstöfunar en Festir ehf. þrjár lóðir til uppbyggingar. Reykjavíkurborg framselur aðra lóðina til Festis ehf fyrir tæpar 326 mkr. Verðið er grundvallað á mati tveggja löggiltra fasteignasala. Þá er samið um að Festir ehf. taki þátt í listskreytingum  í Vogabyggð. Loks kveður samningurinn um nauðsynlegan flutning á skólpdælustöð á Gelgjutanga.
Þriðji samningurinn er á milli Faxaflóahafna sf og Reykjavíkurborgar um kaup borgarinnar á meginhluta Gelgjutanga sem nú er skilgreindur sem hafnarsvæði. Kaupverðið er 40 mkr.

Vinna við deiliskipulagsgerð fyrir Vogabyggð 1 er á lokastigi og ganga áætlanir út á það að uppbygging hefjist á svæðinu fyrri hluta árs 2018.
Áætlanir gera ráð fyrir 1.100 – 1.300 íbúðum í allri Vogabyggð.

Til gamans má geta að Gelgjutangi er fornt örnefni en sagan hermir að Ketilbjörn hinn gamli landnámsmaður hafi lent skipi sínu Elliða við tangann og bundið þar landfestar. Gelgja er fornt orð fyrir festi. Tanginn fékk því nafnið Gelgjutangi en árnar sem renna í voginn voru nefndar Elliðaár eftir skipi Ketilbjarnar.

Tengt efni: