27% minnkun losunar vegna úrgangs

Loftslagsmál

Niðurbrot losunar miðað við BASIC+ þar sem við er bætt landbúnaði, efnanotkun og iðnaði.

Niðurstöður loftslagsbókhalds Reykjavíkur voru kynntar í umhverfis- og skipulagsráði 20. september en í bókhaldinu kemur meðal annars fram að Gas-og jarðgerðarstöð Sorpu á Álfsnesi hefur nú þegar, eftir sitt annað rekstrarár, skilað sér í um 27% minnkun losunar frá 2019. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík árið 2022 er 567.822 tonn en var 590.907 tonn árið 2019 sem er viðmiðunarár.

Dregið hefur úr losun vegna úrgangs um 17.345 tonn sem gerir um 27% samdrátt frá árinu 2019. 

Losun vegna fólksbifreiða dregst saman um tæp 21.000 tonn frá 2019 eða um 8%. Lang stærsti hluti útblásturs í loftslagsbókhaldi Reykjavíkurborgar rætur sínar að rekja til fólksbifreiða eða 222 þúsund tonn á árinu 2022. Losun vegna vörubifreiða og hópbifreiða eykst á milli ára svo og losun vegna skemmtiferðaskipa.

Reykjavík ein af 112 borgum í Evrópusamstarfi um kolefnishlutlausar og snjallar borgir 2030. Markmið Reykjavíkurborgar er að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og að aðlögun að loftslagsbreytingum verði með vistvænum og mannvænum hætti.

Markmiðið til 2030 er að minnka losun um 300.000 tonn miðað við árið 2019.

Helstu niðurstöður:

  • Heildarlosun hefur aukist á milli ára eins og við mátti búast með aukinni umferð eftir COVID tímabilið en er þó ekki komin upp í það sem var árið 2019.
  • Losun vegna götuumferðar hækkar smávægilega, en þó ekki jafn mikið og umferðarmagnið. Þetta stafar af því að hækkandi hlutfall keyrðra km er á rafmagnsbílum og lækkandi hlutföll á bensín- og dísilfólksbílum. Einnig hækkar hlutfall km keyrðra af tengiltvinnbílum. Á heildina litið lækkar losun vegna fólksbíla og má ætla að sú þróun muni bara halda áfram á næstu árum. Losun vegna vörubifreiða og hópbifreiða eykst á milli ára.

Losun vegna skipa á hafnarsvæðum Reykjavíkurborgar er sambærilegt árinu 2019, þegar það var hæst, eftir tvö ár af minni losun. Þetta er aðallega vegna þess að koma skemmtiferðaskipa er álíka mikil og 2019.