25 ára afmæli Borgarvefsjá Reykjavíkur
Nú í desember 2024 fagnar Borgarvefsjá Reykjavíkurborgar 25 ára afmæli.
Forsagan hófst árið 1988 þegar Borgarverkfræðingurinn í Reykjavík, Borgarskipulag Reykjavíkur, Hitaveita Reykjavíkur, Rafmagnsveita Reykjavíkur, Vatnsveita Reykjavíkur og Póstur og Sími tóku höndum saman til að byggja upp landfræðilegt upplýsingakerfi. Samstarfið var formlega samþykkt af borgarráði í júlí 1989, og í maí 1990 hófst skráning gagna í kerfið.
Sex árum síðar, árið 1996, voru öll grunnþemu komin inn fyrir alla Reykjavík – hús, lóðir, götur og lagnir veitustofnana. Þessi grunnvinna var nauðsynleg til að byggja upp þá innviði sem gerðu þróun Borgarvefsjárinnar mögulega.
Fyrsta útgáfan og þróun kerfisins
Fyrsta útgáfa Borgarvefsjárinnar var sett í loftið í desember 1999. Hún var einföld í sniðum en markaði stórt skref í aðgengi að landfræðilegum gögnum fyrir almenning og fagfólk. Í byrjun var hægt að skoða um 20 þemu, þar á meðal lagnir og framkvæmdir. Með tímanum varð kerfið sífellt fjölbreyttara og þróaðist í takt við nýja tækni og þarfir notenda. Í dag eru tæplega 200 þemu aðgengileg í Borgarvefsjá.
Borgarsjá og úttektarkerfi
Árið 1997 varð úttektarkerfi til sem gerði notendum kleift að nálgast gögn í gegnum vefviðmót gegn gjaldi. Borgarsjá kom árið 1998 og bauð upp á greiningar á gögnum, en hún krafðist sérhugbúnaðar sem þurfti að setja upp hjá notendum. Árið 2004 var Borgarsjá sameinuð Borgarvefsjá, sem gerði aðgengið enn auðveldara.
Áhugavert er að Google Maps birtist ekki á netinu fyrr en í febrúar 2005 – fimm árum á eftir Borgarvefsjá.
Mikilvægi Borgarvefsjár í dag
Borgarvefsjá er í dag ómissandi verkfæri fyrir borgarbúa, fyrirtæki og stofnanir, þar sem hún veitir heildstætt aðgengi að gögnum sem stuðla að betri ákvarðanatöku og skipulagi. Þróun hennar er frábært dæmi um hvernig samvinna og tækninýjungar geta skilað sér í varanlegum umbótum fyrir samfélagið.
Við fögnum þessum tímamótum og lítum stolt til baka á 25 ára farsæla sögu Borgarvefsjár. Hún hefur verið lykilþáttur í þróun rafrænna þjónustulausna Reykjavíkurborgar og mun án efa halda áfram að þróast í takt við þarfir framtíðarinnar.