Unglingadeild Hólabrekkuskóla komin aftur í Breiðholtið
Flutningur unglingadeildar Hólabrekkuskóla til baka úr Korpuskóla hófst fyrir jól og lauk að fullu nú í vikunni. Mikil gleði ríkir yfir því að vera komin aftur í hverfið að sögn skólastjóra og aðstoðarskólastjóra sem segja bæði nemendur og starfsfólk hafa fengið dýrmæta og eftirminnilega reynslu af því að vera í Korpuskóla.
Mikilvægt að vera komin aftur í hverfið
Lovísa Guðrún Ólafsdóttir skólastjóri og Guðbjörg Oddsdóttir aðstoðarskólastjóri segja virkilega ánægjulegt að vera komin með unglingadeildina aftur í hverfið, nær heimilum og tómstundum nemenda. „Flutningurinn á sínum tíma var mikil áskorun en gekk vonum framar. Upplifun af Korpuskóla var jákvæð því skólinn er ótrúlega flott skólabygging með fallegum opnum rýmum. Umhverfið í Korpu er einnig einstakt, með nálægð við náttúru, fjöru og skemmtilegar gönguleiðir. Kennarar nýttu umhverfið sem tækifæri og tengdu það við skapandi nám, til dæmis með útikennslu og gönguferðum,“ segir Lovísa og ítrekar hvað bæði starfsfólk og nemendur hafi verið lausnamiðuð, jákvæð og staðráðin í að gera gott úr hlutunum. Þá hafi samstarfið við foreldrasamfélagið verið til fyrirmyndar sem sé ómetanlegt.
Gott veganesti í reynslubankann
Guðbjörg segir nemendur hafa upplifað minna áreiti með því að vera sér í rólegri og notalegri stemningu. „Þar gat heldur enginn skroppið út í Bónus í frímínútum því ekkert slíkt var í nálægð en þrátt fyrir notalega upplifun þá er auðvitað mikilvægt fyrir nemendur og starfsfólk að komast aftur í sitt hverfi.“ Báðar segja þær Lovísa og Guðbjörg að reynslan hafi á endanum reynst dýrmæt og gott veganesti í reynslubankann. Rútuferðirnar hafi reynst spennandi partur af rútínunni sem hafi gefið minna svigrúm til að mæta of seint, þó auðvitað hafi málin flækst ef einhver svaf yfir sig eða var seinn af öðrum ástæðum.
Þar gat heldur enginn skroppið út í Bónus í frímínútum því ekkert slíkt var í nálægð en þrátt fyrir notalega upplifun þá er auðvitað mikilvægt fyrir nemendur og starfsfólk að komast aftur í sitt hverfi.
Korpuskóli, nútímalegt og gott skólahúsnæði
Rýma þurfti hluta skólans vegna húsnæðisvanda og framkvæmda haustið 2023 og það getur reynst áskorun að finna húsnæði fyrir stóran nemendahóp. Skólinn fékk Korpuskóla sem er nútímalegt og gott skólahúsnæði til afnota og fljótlega varð ljóst að viðgerðir í Hólabrekkuskóla yrðu tímafrekar. Vegna umfangs framkvæmdanna var talið mikilvægt að nota tækifærið og gera breytingar á gamla húsnæðinu eins og að opna rými, bæta hljóðvist og fleira til að það henti nútíma kennsluaðferðum eins og til dæmis teymiskennslu.
Ánægðar með nýtt færanlegt hús á lóðinni
Færanlegar kennslustofur eru komnar á lóð skólans sem Lovísa og Guðbjörg eru virkilega ánægðar með. Þær segja húsnæðið til fyrirmyndar og vel gengið frá öllu, hljóðvistin sé framúrskarandi og þar megi vel við una. Það sé varla hægt að kalla þetta færanlegar kennslustofur þar sem þetta er í raun glæsilegt skólahúsnæði með öllum þægindum.