Tillaga um aukið framlag til Félagsbústaða og fjölgun félagslegra leiguíbúða samþykkt í borgarstjórn
Tillaga samstarfsflokkanna Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um að styrkja fjárhagslega sjálfbæra uppbyggingu Félagsbústaða og fjölga félagslegum leiguíbúðum í Reykjavíkurborg var samþykkt í borgarstjórn í gær.
513 milljónir í árlegt eiginfjárframlag næstu þrjú árin
Tillagan er í fjórum liðum. Fyrsta tillagan fjallar um að Reykjavíkurborg veiti eiginfjárframlag til fimm ára til fjölgunar íbúða. Lagt er til að Reykjavíkurborg skuldbindi sig til að veita 513 milljónum í árlegt eiginfjárframlag næstu þrjú árin og 263 milljónum á ári næstu tvö ár þar á eftir. Auk þess er lagt til að veita 300 milljónum á árinu 2025 með viðauka. Lagt er til að borgarstjóra verði falið að útfæra nýtingu eiginfjárframlags með Félagsbústöðum.
Leita leiða til að hraða uppbyggingu félagslegs húsnæðis í borginni
Önnur tillagan fjallar um nýtt uppbyggingarlíkan til að tryggja framboð hagkvæmra íbúða. Lagt er til að fela borgarstjóra í samstarfi við stjórn Félagsbústaða að leita nýrra leiða til þess að hraða uppbyggingu félagslegs húsnæðis í borginni. Í því samhengi væri borgarstjóra meðal annars falið að kanna sérstaklega fýsileika þess að Reykjavíkurborg, Félagsbústaðir eða nýtt félag á þeirra vegum, kæmi með beinum hætti að uppbyggingarverkefnum sem leiða til fjölgunar félagslegra íbúða. Einnig er lagt til að farið verði í lagalega rýni á slíkri uppbyggingu og öðrum þeim leiðum sem borgarstjóri leggur til.
Greina þörf fyrir fjölbreyttara búsetuform og mæta þörf fyrir þjónustuíbúðir
Þriðja tillagan fjallar um uppbyggingu fjölbreyttara búsetuforms. Þar er lagt til að fela borgarstjóra í samvinnu við velferðarsvið að greina þörf fyrir fjölbreyttara búsetuform fyrir ákveðna hópa, svo sem samfélagsbúsetu.
Fjórða tillagan fjallar um þjónustuíbúðir á vegum Félagsbústaða. Lagt er til að fela borgarstjóra í samvinnu við Félagsbústaði og velferðarsvið að móta aðgerðaáætlun til að mæta þörf fyrir þjónustuíbúðir og yfirfara núverandi húsnæði og skoða hvort það mæti nútíma þörfum.
Segir tillögu sprottna úr brýnni þörf eftir félagslegu húsnæði
„Þessi tillaga er sprottin úr brýnni þörf eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík og kjarna stefnu okkar í samstarfsflokkunum. Það er okkar einlæga trú að borgin verði að tryggja að fólk með lágar tekjur, öryrkjar, eldri borgarar og aðrir sem standa höllum fæti lendi ekki í húsnæðisóöryggi eða standi í sífelldum flutningum. Öruggt heimili er grunnur að öllu öðru. Þegar fólk veit hvar það sefur næstu mánuði eða ár verður allt auðveldara; að halda vinnu, sinna námi, ala upp börn og hugsa um heilsuna,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri.