Skóflustunga tekin að nýjum leikskóla í Fossvogi

Gréta Þórsdóttir Björnsson verkefnastjóri Reykjavíkurborg, Hannes Þór Baldursson framkvæmdastjóri K16, Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Sólveig Björk Ingimundardóttir verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg..
Skóflustunga að nýjum leikskóla í Fossvogi

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri tók í gær fyrstu skóflustungu að nýjum leikskóla sem staðsettur er við Fossvogsblett í Fossvogi. Leikskólinn mun hýsa 10 leikskóladeildir sem dreifast í þrjá húshluta.

Leikskólabyggingin er ein hæð og stendur austast á lóðinni. Mikið skóglendi er í kring og stutt í náttúruna. Byggingin er u-laga og liggur í eins konar faðm til vesturs þar sem skjólgott og rólegt útisvæði myndar aðkomutorg leikskólans.

Yngstu börnin verða staðsett í suðurhluta byggingarinnar þar sem eru fjórar deildir. Miðstig skólans verður í austurhlutanum þar sem eru þrjár deildir og elstu börnin verða í norðvesturhluta byggingarinnar þar sem verða þrjár deildir. Í norðurhluta byggingarinnar, á milli deilda mið- og efsta stigs, eru fjölnotasalur, bókasafn og opið rými, listasmiðja, eldhús skólans ásamt aðstöðu starfsfólks. 

Byggingin verður Svansvottuð og gert er ráð fyrir að leikskólinn opni dyr sínar fyrir börnum um mitt ár 2027.