Nýta rauntímagögn til að draga úr heimilisleysi og bæta þjónustu

Elisabetta Leni frá Finnlandi, Louise Marie Pedersen frá Danmörku og Soffía Hjördís frá Íslandi voru með erindi á ráðstefnu FEANTSA í Aþenu á síðasta ári.
Svarthvít mynd af þremur konum sem sitja í pallborði og tala um heimilisleysi.

Í nýlegri grein í tímaritinu European Journal of Homelessness eru dregin saman dæmi frá ólíkum borgum á Norðurlöndunum, þar á meðal Reykjavík, sem sýna að markviss nýting rauntímagagna geti skipt sköpum í baráttunni gegn heimilisleysi. Greinarhöfundar færa fyrir því rök að með rýningu rauntímagagna og samstarfi þvert á kerfi sé hægt að skapa samfélög þar sem heimilisleysi er sjaldgæft, skammvinnt og endurtekur sig ekki. 

Soffía Hjördís Ólafsdóttir, deildarstjóri í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hjá Reykjavíkurborg, er einn höfunda greinarinnar. Það eru samtökin FEANTSA sem standa að tímaritinu en þau vinna með heimilislausu fólki með fjölbreyttum hætti.

Að greininni standa, auk Soffíu, sérfræðingar frá aðildarfélögum í FEANTSA frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. „Þetta er afrakstur ársvinnu og því mjög gott að sjá að greinin er komin í birtingu,“ segir Soffía. „Nú vonum við bara að hún nái sem mestri dreifingu, til dæmis meðal forsvarsfólk sem flestra sveitarfélaga á Norðurlöndunum, sem getur þá skoðað með hvaða hætti er hægt að nýta rauntímagögn og aðlaga þau að þeirra umhverfi.“

Hún segir samstarf milli Norðurlandanna hafa aukist í málaflokknum sem sé mikilvægt og geti skilað miklu. „Undanfarin ár hafa Norðurlöndin styrkt samstarf sitt og meðal annars stofnað Nordic Homelessness Allience. Samstarf við nágrannalönd okkar er mikilvægt til að sjá hvað vel er gert, hvað er líkt og hvað ólíkt, hvar við stöndum í samanburði við aðra og hvaða þekkingu getum við fengið að láni til að byggja upp öflugari þjónustu.“

Betri yfirsýn skili mælanlegum árangri

Greinin er unnin með hliðsjón af tillögum OECD um tíðari, nákvæmari og aðgerðamiðaðri gagnasöfnun og -úrvinnslu. Með því móti sé hægt að styrkja forvarnir auk þess að bæta ákvörðunatökuferli og úthlutun fjármuna í baráttunni gegn heimilisleysi.

Í aðalkafla greinarinnar er sagt frá samstarfi sveitarfélagsins Kolding og samtakanna Hjemløsninger. Þar er sýnt hvernig rauntímagagnamódel getur skapað sameiginlega yfirsýn, gert faldar birtingarmyndir heimilisleysis sýnilegar og stutt við markvissari og samræmdari nálgun þvert á þjónustuaðila og kerfi. „Þetta er mjög áhugaverð lesning og það er gaman að segja frá því að við erum með mjög svipað módel hér í Reykjavík, þar sem við reiðum okkur á rauntímagögn og höfum mikla yfirsýn yfir stöðu og ferðalag notanda í gegnum þjónustuferlið hjá okkur,“ segir Soffía. Í Reykjavík hafi til að mynda verið þróað nýtt skráningarform og einnig betra skráningarkerfi, sem tekur mið að kröfum persónuverndarlaga, bæða í neyðarþjónustu og í búsetuþjónustu. „Með góðri yfirsýn náum við betri árangri. Við sjáum árangurinn meðal annars í því að árið 2025 fækkaði gestum í neyðarskýlum samhliða því að úthlutunum fjölgaði milli ára.“

Öll gagnasöfnun snúist um að bæta lífsskilyrði fólks

Hún undirstrikar að öll öflun gagna hjá Reykjavíkurborg miði að því að geta sinnt stuðningsþörfum íbúa betur og stuðlað að því að bæta lífsskilyrði fólks. „Við finnum það mjög skýrt í okkar málaflokki að samstarf milli þeirra sem koma að stuðningi við einstaklinga skiptir öllu máli. Það er lykillinn að því að við getum náð þeim markmiðum að veita sem bestan stuðning og við hæfi. Þess vegna vinnum við að því á hverjum degi að styrkja tengsl okkar við önnur kerfi, því þannig vinnum við að sameiginlegum markmiðum með notendum.“