Músíksjóður Guðjóns Sigurðssonar sameinaður Tónlistarsjóði - úthlutun í byrjun árs

Fimmtudaginn 8. janúar hélt Tónlistarmiðstöð móttöku fyrir styrkhafa fyrri úthlutunar Tónlistarsjóðs 2026. Kristín María
Hópmyndataka á samkomu styrkhafa fyrri úthlutunar Tónlistarsjóðs 2026.

Nýafstaðin úthlutun Tónlistarsjóðs efldist til muna með 11 milljóna króna framlagi frá Reykjavíkurborg. Féð kom úr Músíksjóði Guðjóns Sigurðssonar, sem stofnaður var árið 1908 en hefur nú verið slitið. Styrkhafar komu saman til að fagna úthlutuninni.

Úthlutun úr Tónlistarsjóði nú í upphafi árs var sú fjórða frá stofnun sjóðsins árið 2024. ‍Alls bárust sjóðnum 342 umsóknir en til úthlutunar voru rétt tæpar 92 milljónir og var þeim veitt til 80 verkefna. Féð úr Músíksjóði Guðjóns Sigurðssonar kom þar að góðum notum.

Samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins var markmið hans að tryggja íbúum höfuðstaðarins ókeypis, eða með vægum kjörum, aðgang að góðri tónlist við almenningshæfi. Til að fylgja þeirri stefnu rann fjármagnið í deild innviða og þróunar hjá Tónlistarsjóði. Áhersla var lögð á tónleikahald fyrir almenning á tónleikastöðum og tónlistarhátíðum í Reykjavík, auk þess sem fjórðungur upphæðarinnar rann til verkefna fyrir börn.

„Það er mikið fagnaðarefni að fjármunum Guðjóns heitins sé loks komið í réttan farveg eftir um 110 ár, reykvísku tónlistarumhverfi og almenningi til heilla,” segir Ása Dýradóttir, verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavík. „Tilgangur deildar þróunar og innviða hjá Tónlistarsjóði talaði sterkt til markmiða Músíksjóðs Guðjóns og var það lukka að geta sameinað krafta okkar með Tónlistarsjóði hvað varðar úthlutun.”