Metár í Grasagarðinum
Árlega heimsækja um 200.000 manns Grasagarð Reykjavíkur en gaman er að segja frá því að árið 2025 var metár í aðsókn á fræðsluviðburði í garðinum. Þetta var í fyrsta skipti sem aðsóknin fór yfir 6.000 manna markið og gott betur því fjöldinn sem tók þátt í fræðslu og viðburðum í garðinum fór yfir 6.800 manns. Fræðslan í Grasagarðinum spannar allt frá heimsóknum leikskólabarna frá tveggja ára aldri og upp í eldri borgara á tíræðisaldri.
Á árinu sem leið fór fræðslan fram á nokkrum tungumálum ásamt íslenskunni og er þá helst að nefna reglulega fræðsluviðburði á ensku en einnig var fólk verið frætt um garðinn og plöntur á spænsku og úkraínsku með aðstoð frá samstarfsaðilum garðsins.
Viðburður á Safnanótt
Vonandi verða gestir safnsins jafn fróðleiksfúsir árið 2026 en fyrsti viðburður ársins verður vasaljósagangan „Töfrandi tré í mögnuðu myrkri“ á Safnanótt þann 6. febrúar klukkan 18. Þá verður fjallað um galdra, goðsagnir og menningarhefðir sem tengjast ákveðnum trjátegundum sem finna má í garðinum. Í göngunni, sem hentar öllum aldurshópum, koma ást, undirheimar, ódauðleiki, Öskubuska og máttugir töfrasprotar við sögu.