Borgarstjóri vígir Vinabekk á skólalóð Engjaskóla
Nemendur í Engjaskóla í Grafarvogi fengu Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra til að vígja vinabekk á skólalóðinni í morgun.
Nemendur Engjaskóla óskuðu eftir því fyrir jól að fá setbekk á skólalóðina hjá Reykjavíkurborg sem þau ætluðu að nota sem vinabekk.
Nemendur útbjuggu myndband sem þau sendu borginni og óskuðu eftir því að fá „einn góðan og sterkan bekk“ hjá borginni sem þau myndu kalla vinabekk og efla þannig vináttu í skólanum og útrýma einmanaleika. Nemendur sem setjast á bekkinn eru að gefa til kynna að þau vilji fá að leika og aðrir nemendur bjóða þeim að vera með.
Engjaskóli er réttindaskóli UNICEF (e. Child Right Schools). Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpar börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Vinabekkurinn er liður í starfi skólans sem réttindaskóla.
Bekkurinn er kominn á skólalóðina á staðinn sem nemendur voru búnir að ákveða að bekkurinn ætti að vera á. Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri, kom í heimsókn í Engjaskóla í morgun og vígði bekkinn formlega með því að klippa á borða.
Nemendur, skólastjórnendur og kennarar tóku borgarstjóra fagnandi og sögðu bekkinn hafa komið sér mjög vel í frímínútum og nú ætti enginn að vera einmana. Gerð var könnun meðal nemenda um heiti á bekknum og var niðurstaðan Vinabekkur og verður settur skjöldur á bekkinn með heitinu.
Til hamingju með Vinabekkinn Engjaskóli!