Bergið Headspace hlýtur styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsens
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri afhenti styrk úr minningarsjóði Gunnars Thoroddsen við hátíðlega athöfn í Höfða í gær. Bergið Headspace hlýtur styrkinn í ár fyrir starf þeirra í þágu ungmenna.
Sigurþóra Bergsdóttir stofnaði Bergið Headspace í september árið 2018 og síðan þá hefur það vaxið og veitir þjónustu á fimm stöðum, í Reykjavík, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Akureyri.
Bergið veitir ráðgjöf og þjónustu til ungmenna á aldrinum 12 - 25 ára. Markmið félagsins er að stuðla að bættri líðan og efla virkni ungmenna í samfélaginu. Þau bjóða upp á svokallaða lágþröskuldaþjónustu, þar sem ekki er þörf á sérstakri beiðni, sem gerir ungmennum kleift að leita sér hjálpar hjá ráðgjöfum í Berginu við hvers kyns vandamálum sem þau standa frammi fyrir. Um 120 ungmenni koma í ráðgjöf í Bergi í viku hverri og árlega eru þetta því hundruð ungmenna sem sum hver eru að leita í fyrsta skipti eftir hjálp.
Borgarstjóri óskaði þeim velfarnaðar og sagði í ræðu sinni að það væri nauðsynlegt að styðja við þetta mikilvæga starf. „Bergið býður alla velkomna sem þangað leita og ráðgjafar aðstoða ungmenni við að vinna úr flóknum málum og stuðla þannig að bættri geðheilsu fyrir börn og unglinga“.
Fulltrúar Bergsins þær Rut Sigurðardóttir, fagstjóri og Guðbjörg Fjóla Halldórsdóttir, ráðgjafi veittu styrknum viðtöku og þökkuðu stuðninginn sem þær sögu að kæmi sér vel fyrir starfsemina.
Minningarsjóður Gunnars Thoroddsen var stofnaður af hjónunum Bentu og Valgarði Briem á fæðingardegi Gunnars þann 29. desember 1985 og í gær var veitt úr sjóðnum í 40. sinn.
Tilgangur minningarsjóðsins er að veita styrki til einstaklinga, hópa, stofnana eða félaga á sviði mannúðarmála, heilbrigðismála eða menningarmála, en Gunnar lét sérstaklega til sín taka í þessum málaflokkum þegar hann gegndi embætti borgarstjóra.
Til hamingju Bergið Headspace!