Aukin áhersla á aðgengi að líkamsrækt í bæklingi um þjónustu við eldra fólk

Ýmsar nytsamlegar upplýsingar er að finna í nýjum bæklingi um þjónustu við eldra fólk.
Hópur af eldra fólki situr við Tjörnina í Reykjavík

Hvers konar afþreyingu og líkamsrækt bjóða félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar og hvar er þær að finna? Hvaða íþróttafélög eru með starf sérstaklega ætlað eldra fólki? Hvaða þjónustu getur fólk fengið heim til sín og hvernig á að nálgast hana? Svör við þessum spurningum og ýmsum öðrum sem tengjast lífi eldra fólks í borginni er að finna í nýjum bæklingi um þjónustu við eldra fólk í Reykjavík.

Í takti við aukna áherslu á heilsueflingu fólks á öllum aldri var að þessu sinni aukið við upplýsingar um þá fjölbreyttu hreyfingu sem hægt er að nálgast, bæði á vegum borgarinnar sjálfrar og í íþróttafélögum víða um borg. 

Bent er á fjölda staða í borginni þar sem kjörið er að njóta samveru, svo sem í sundlaugum, söfnum, menningarhúsum og á fjölda útivistarsvæða.

Í bæklingnum eru einnig upplýsingar fyrir þau sem þurfa stuðning í daglegu lífi. Meðal annars er þar allt um heimaþjónustu en undir hana heyrir bæði heimastuðningur og heimahjúkrun. Þá er fjallað um þjónustuíbúðir, dagdvalir og hjúkrunarheimili borgarinnar, svo fátt eitt sé nefnt. Aftast í bæklingnum eru svo hlekkir á ýmsa áhugaverða og gagnlega þjónustu sem nýst geta eldra fólki í Reykjavík.

Bæklingurinn um þjónustu við eldra fólk er á rafrænu formi og er uppfærður árlega.