Árleg vitundarvakning um öryggi í sundlaugum

Sundlaugarvörðurinn Dagbjört Ýr Gísladóttir að störfum í Laugardalslaug. Róbert Reynisson
Sundlaugarvörðurinn Dagbjört Ýr Gísladóttir vaktar skjái í vaktherbergi Laugardalslaugar. Situr í rauðri peysu, gluggi út að innilaug vinstra megin í mynd.

Nú fer fram árleg vitundarvakning um öryggi í sundlaugum Reykjavíkurborgar. Vitundarvakningin er haldin til minningar um Guðna Pétur Guðnason, starfsmann velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem lést þann 21. janúar 2021.

Lögbundin fræðsla fyrir starfsfólk sundlauga

Menningar- og íþróttasvið Reykjavíkurborgar skipuleggur lögbundna fræðslu fyrir starfsfólk sundlauga með það að markmiði að efla þekkingu þess og færni í öryggismálum. Fræðslan fer fram í formi fyrirlestra og verklegra æfinga. Að auki stjórna vaktstjórar reglubundnum neyðaræfingum samkvæmt vaktaplani, þar sem farið er yfir verkferla, búnað og viðbrögð við neyðartilvikum. Þessar æfingar eru umfram lögbundna fræðslu.

Rauði kross Íslands annast þjálfun laugarvarða um allt land, auk þjálfunar leiðbeinenda og býður árlega upp á sérhæft námskeið í öryggi og björgun fyrir starfsfólk sund- og baðstaða. Rauði krossinn er aðili að norrænum og alþjóðlegum samtökum á sviði öryggis og björgunar í laugum og vötnum og tryggir þannig að þjálfun byggi á nýjustu þekkingu og bestu aðferðum hverju sinni.

Á námskeiðunum fær allt starfsfólk sund- og baðstaða þjálfun í öryggi, skyndihjálp og björgun í vatni. Laugarverðir gangast jafnframt undir árlegt hæfnismat í björgun úr vatni til að viðhalda starfsréttindum sínum. Árið 2025 luku 238 nýir laugarverðir hjá sundlaugum Reykjavíkurborgar grunnþjálfun Rauða krossins í öryggi og björgun.

Öryggi í sundlaugum Reykjavíkurborgar er ávallt forgangsatriði í rekstri þeirra og er stöðugt til endurskoðunar með það að markmiði að tryggja sem öruggast umhverfi fyrir gesti og starfsfólk.

Öryggi er sameiginleg ábyrgð

Sundlaugargestir bera ábyrgð á eigin hegðun og öryggi. Það felur meðal annars í sér að gestir fylgi umgengnisreglum og fyrirmælum á sundstað og taki viðeigandi tillit til hvers kyns varúðarmerkinga og aðstæðna sem gefa tilefni til að sýnd sé aukin aðgát. Þá felur ábyrgð gesta jafnframt í sér að vera í nægilega góðu andlegu og líkamlegu ástandi til sundiðkunar. Auk þess skulu gestir vera meðvitaðir um að vatn, dýpi, hiti og kuldi geta haft áhrif á undirliggjandi sjúkdóma eða kvilla.

Þegar farið er í sund er það ávallt á eigin ábyrgð. Sú ábyrgð framlengist þegar gestir koma með börn og þá ber forráðafólki að tryggja að börn séu undir viðeigandi eftirliti og búin nauðsynlegum öryggisbúnaði, svo sem kútum, eftir því sem við á.

Mikilvægt er að sundlaugargestir virði starf laugarvarða og veiti þeim rými og vinnufrið til að sinna skyldustörfum sínum. Laugarverðir gegna lykilhlutverki í að tryggja öryggi allra gesta og þurfa að geta sinnt eftirliti og viðbrögðum án mikilla truflana.

Eins og áður sagði er öryggi gesta haft að leiðarljósi í sundlaugunum, þannig að upplifun þeirra verði sem best þegar þeir sækja laugarnar til slökunar og heilsuræktar. Markmiðið er að sundlaugarnar haldi áfram að vera staðir sem stuðla að líkamlegri, andlegri og félagslegri vellíðan.

Með öflugu samstarfi gesta og starfsfólks stuðlum við saman að sterkri öryggismenningu á sund- og baðstöðum.