Gróðurhúsið á Lækjartorgi er sýningarsalur fyrir sköpunargáfu starfsfólks garðyrkju Reykjavíkur, úti gengur kannski á með éljum eða slyddu, en inni er komið vor. Þar svífur yfir gólfinu ævintýralega fallegur blómaballkjóll.
„Við áttum þessi blóm sem við höfðum áður notað í krans í gróðurhúsinu en langaði að gera eitthvað annað með þau núna,“ segir Arna Kristjánsdóttir, starfsmaður garðyrkjunnar. Á þessum árstíma er það kalt í gróðurhúsinu að aðeins sígrænar plöntur lifa þar inni og því er gott að luma á svona fallegum blómum sem efnivið.
Svífandi ballkjóll
Hugmyndin varð upphaflega til í hugmyndavinnu fyrir hrekkjavökuskreytingar. „Við sáum sniðuga skúlptúra úr vírneti, sem eru gegnsæir og virka eins og draugar,“ segir hún en þessi hugmynd þróaðist yfir í það að verða stórglæsilegur ballkjóll. Blómin eru sett utan á hænsnavírnet, sem mótað er líkt og gína og myndar skapalón fyrir kjólinn. Ballkjóllinn lítur hreinlega út eins og eitthvað af sýningarpöllunum í París en hugmyndin að því að gera kjól ætti ef til vill ekki að koma á óvart í ljósi þess að Arna er menntaður fatahönnuður.
„Okkur datt í hug að það væri hægt að gera svona blómakjól utan á vírnetið. Byrjuðum bara á þessu og smám saman fæddist þessi kjóll,“ segir hún. Kjóllinn er efnismikill og þungur og var nokkur áskorun að koma honum á staðinn en það tókst að hengja hann upp á vírum svo nú svífur hann yfir gólfum gróðurhússins.
Ævintýralegt og líflegt
Sígrænt efni var sett í kransinn, utan um rammann í gróðurhúsinu, og hann var síðan skreyttur með fiðrildum. „Smám saman þróaðist þetta svona,“ segir Arna um heildarútlitið, sem tók mið af rómantískum anda kjólsins, en blóm í vösum bættust við og auka á litadýrðina.
Kjólinn hallar sem ýtir undir léttleika og tilfinningu fyrir hreyfingu og styrkir ævintýratilfinninguna. Örnu finnst gaman að gefa húsinu lit og líf. „Krökkum finnst líka gaman að skoða þetta, þetta er svolítið ævintýralegt. Maður getur líka farið að leyfa sér að hlakka til vorsins,“ segir Arna að lokum og er vel hægt að taka undir það.
Opnunartími gróðurhússins er 8-15 virka daga en skreytingin sést auðvitað vel í gegnum glerið ef fólk er að skoða sköpunarverkið á öðrum tímum dagsins.