Vitundarvakning um ferðavenjur í samgönguviku
Evrópska samgönguvikan hefst í dag, þriðjudaginn 16. september, og stendur til 22. september, en þema vikunnar er Samgöngur fyrir öll. Skilaboðin felast í hvatningu um að leggjast á eitt við að skapa aðgengilegt og öruggt samfélag fyrir alla – óháð hreyfigetu.
Frá árinu 2002 hafa ríki, borgir og bæjarfélög á Íslandi tekið þátt í samstilltu átaki sveitarfélaga í Evrópu til að ýta undir og vinna að sjálfbærum samgöngum. Það er gert með borgar- og samgönguskipulagi svo þægilegt og öruggt sé að ganga eða hjóla til og frá vinnu og heimilis.
Markmið vikunnar er að kynna íbúum í þéttbýli samgöngumáta sem eru allt í senn vistvænir, hagkvæmir og bæta heilsu fólks um leið og þeir hafa jákvæð áhrif á umhverfi og andrúmsloft.
Reykjavíkurborg hefur ávallt staðið fyrir viðburðum í þessari viku og hvatt borgarbúa til að velja heppilega ferðamáta. Íbúar geta til að mynda skoðað hvort breytilegur ferðamáti komi til greina, til að mynda að ganga einn dag í viku, hjóla eða fara með strætó.
Viðburði má nálgast á vefsíðum sveitarfélaga, auk Facebook síðu vikunnar.
Meðal þeirra viðburða sem eru á dagskrá á höfuðborgarsvæðinu eru:
- 16.9 Samgönguvikan hefst víða í evrópskum borgum og bæjarfélögum.
- 17.9 Auðlindahringur í Elliðaárdalnum í tilefni af samgönguviku.
- 18.9 Málþingið Fjölbreyttar samgöngur fyrir öll klukkan 9 í Tjarnarsal ráðhússins á vegum Reykjavíkurborgar, Vegagerðar, Betri samgangna og Strætó BS fyrir þar sem fjallað verður um allskonar hliðar samgangna.
- 19.9 Formleg opnun á göngubrú yfir Sæbraut.
- 22.9 Evrópski Bíllausi dagurinn. Almenningur er hvattur til þess að skilja bílinn eftir heima og til að auðvelda það verður frítt í landsbyggðarstrætó og í strætó á höfuðborgarsvæðinu.
Samgönguvika er vitundarvakning um valkosti í ferðamátum og hefur starfsfólk borgarinnar gert nokkur myndbönd af þessu tilefni sem deilt verða á samfélagsmiðlum. Þau sýna hvernig það fer til og frá vinnu.