Vitundarvakning-öryggi í sundlaugum

Sundlaugin í Breiðholti

Árleg vitundarvakning um öryggi í sundlaugum Reykjavíkur er í dag, 21. janúar. Vitundarvakningin er haldin til minningar um Guðna Pétur Guðnason, starfsmann velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, sem lést eftir  sundferð 21. janúar 2021. 

Vitundarvakningin, er nú haldin í annað sinn, og er í samstarfi við Rauða Kross Íslands. Að þessu sinni verður sjónum beint að öryggi í sundlaugum og því mikilvæga starfi sem laugarverðir sinna ásamt þeirri þjálfun sem þeir fá. 

Laugarverðir gegna lykilhlutverki sem viðbragðsaðilar

Rauði krossinn hefur tekið við þjálfun laugarvarða á öllu landinu auk þjálfunar á leiðbeinendum og býður upp á sérstakt námskeið, Öryggi og björgun, á ári hverju fyrir þetta starfsfólk. Rauði krossinn er aðili að norrænum og alþjóðlegum samtökum í öryggi og björgun í laugum og vötnum og tryggir að unnið sé samkvæmt nýjustu aðferðum hverju sinni.

Á námskeiðinu fær allt starfsfólk sund – og baðstaða, alls staðar á landinu, sérstaka þjálfun í öryggi, skyndihjálp og björgun í vatni. Auk þess þreyta laugarverðir árlega hæfnismat í björgun úr vatni til að viðhalda réttindum sínum til að starfa sem slíkir.

350 nýir laugarverðir kláruðu grunnþjálfun Rauða krossins í Öryggi og björgun árið 2024 auk þess sem 1.295 einstaklingar stóðust hæfnismat í björgun og vatni.

Gestir bera einnig ábyrgð

Sundlaugargestir bera einnig ábyrgð á sinni hegðun; að viðkomandi hafi færni til að vera í djúpu vatni og sé í andlegu og líkamlegu ástandi til að fara í sund og vera meðvitaður um að vatn, hiti og kuldi geti haft áhrif á undirliggjandi sjúkdóma eða kvilla.

Þegar við förum í sund gerum við það alltaf á eigin ábyrgð. Sú ábyrgð framlengist ef við erum með börn með okkur og þá þurfum við til dæmis að tryggja að þau séu með nauðsynlegan öryggisbúnað eins og kúta.

Hér eftir sem hingað til verður unnið í sundlaugunum með öryggi gesta að leiðarljósi svo upplifun þeirra verði sem best þegar þeir heimsækja laugarnar til leikja, heilsuræktar og slökunar og þeir upplifi þær áfram sem líkamlega, andlega og félagslega heilsulind.

Með öflugu samstarfi allra stuðlum við að bættri öryggismenningu á sund – og baðstöðum.