Vinabönd treyst í Japan

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Hiroyuki Abe borgarstjóri Tama-borgar í Japan
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Hiroyuki Abe borgarstjóri Tama borgar í Japan

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Hiroyuki Abe borgarstjóri Tama borgar í Japan skrifuðu á dögunum undir viljayfirlýsingu um aukið samstarf borganna, meðal annars á sviði menntunar-, menningar- og íþróttamála. Heiða Björg tók þátt í víðtækri dagskrá í tengslum við þjóðardag Íslands á heimssýningunni í Osaka.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri heimsótti Tama borg í nágrenni Tókýó 28. maí síðastliðinn og er óhætt að segja að hún hafi fengið höfðinglegar móttökur í þessari fallegu borg. Tilgangur heimsóknarinnar var að treysta vinabönd milli borganna og undirritaði Heiða ásamt Hiroyuki Abe borgarstjóra Tama borgar viljayfirlýsingu um undirbúning systraborgarsamkomulags milli borganna tveggja. Sérstakur áhugi er beggja megin að kanna möguleg nemenda- og kennaraskipti og vinna að frekara samstarfi á sviði menningar og íþrótta. Á blaðamannafundi sem haldinn var eftir undirritunina kom fram mikill áhugi á Reykjavík og framtíðarsamstarfi borganna. 

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Hiroyuki Abe borgarstjóri Tama-borgar undirrita viljayfirlýsingu um undirbúning systraborgarsamkomulags milli borganna tveggja.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Hiroyuki Abe borgarstjóri Tama borgar undirrituðu viljayfirlýsingu um undirbúning systraborgarsamkomulags milli borganna tveggja. 

„Það var áhrifamikið að koma til Tamaborgar og finna þann hlýhug og áhuga sem mætti okkur. Það eru mörg spennandi tækifæri til samstarfs og ég hlakka til að vinna áfram að þróun verkefna með Abe borgarstjóra og samstarfsfólki hans,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri. 

 

 

„Það er sérlega ánægjulegt að finna brennandi áhuga á að læra af reynslu okkar hjá Reykjavíkurborg um hvernig borgir geta stuðlað að auknum kvenréttindum, þar höfum við mörgu að miðla “

 

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri

Mikill áhugi á Íslandi

Allt frá því að íslenskt íþróttafólk gerði Tama borg að „heimavelli“ sínum fyrir Ólympíuleikana í Tokýó árið 2020 hefur borgin haldið upp á tengslin með margvíslegum hætti. Götur Tama eru skreyttar íslenskum fánum, borgaryfirvöld hafa gefið út rit með upplýsingum um landið þar sem fjallað er um siði, kvenréttindi auk viðtala við Stefán Hauk Jóhannsson sendiherra Íslands í Japan og Guðna Th. Jóhannesson fyrrverandi forseta. Í þessum mánuði verður svo haldin fimm daga matarhátíð til að fagna þjóðhátíðardegi Íslands þann 17. júní.

Heimaborg Sanrio og Hello Kitty

Borgarstjórarnir fyrir fram höfuðstöðvar Sanrio framleiðendur Hello Kitty í Tama borg
Borgarstjórarnir fyrir fram höfuðstöðvar Sanrio sem framleiða hinar heimsfrægu Hello Kitty vörur.

Tama borg er fræg fyrir að vera heimaborg Hello Kitty en þar eru höfuðstöðvar Sanrio fyrirtækisins og einnig HelloKittyland skemmtigarðsins. Borgin er afar falleg og friðsæl vin í útjaðri stórborgarsvæðis Tókýó. Borgarstjórinn Abe sem er á sínu fjórða kjörtímabili er framsækinn leiðtogi og undir hans stjórn hefur borgin tekið fjölmörg skref í átt að sjálfbærni og auknum jöfnuði.

Borgarstjóri tók þátt í að kynna Ísland í Japan

Borgarstjóri á fundi ásamt Höllu Tómasdóttur forseta Íslands með japönskum þingkonum í Tsuda háskólanum þar sem rætt var um kvenréttindabaráttuna á Íslandi og stöðuna í þeim málum í Japan.
Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Björn Skúlason eiginmaður hennar og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri íslensku tónlistarfólki á Íslandsdaginn á Heimssýningunni í Osaka.

Auk heimsóknarinnar til Tama borgar tók Heiða Björg þátt í fjölmörgum viðburðum í tengslum við heimsókn Höllu Tómasdóttur forseta Íslands til Japan, menningar- og matardagskrána Taste of Iceland í Tokyo og Íslandsdaginn á Heimsýningunni (World Expo) í Osaka. 

Heiða Björg borgarstjóri ræðir um hlut sveitarstjórna og borga í að bæta jöfnuð kynjanna.
Heiða Björg borgarstjóri ræðir um hlut sveitastjórna og borga í að bæta jöfnuð.

Laugardaginn 31. maí síðastliðinn var áhrifaríkur fundur forseta Íslands með japönskum þingkonum í Tsuda háskólanum þar sem rætt var um kvenréttindabaráttuna á Íslandi og stöðuna í þeim málum í Japan. Þá flutti borgarstjóri ræðu um hlut sveitarstjórna og borga í að bæta jöfnuð, og ásamt Höllu Tómasdóttur forseta Íslands tók þátt í áhugaverðum og hreinskiptum umræðum við ungt fólk. Viðburðurinn í Tsuda háskóla var skipulagður af Asahi, stærstu fjölmiðlasamsteypu Japan. Viðburðirnir vöktu mikla athygli í Japan þessa daga sem íslenska sendinefndin var þar.