Vilji fyrir varanlegum rekstri almenningsmarkaðar í Tryggvagötu

Fjármál Mannlíf

Róbert Reynisson
Tryggvagata 19 (Kolaportið). Myndað á ská frá Hafnartorgi sirka. Blár himinn, gatan í forgrunni.

Auglýst verður eftir varanlegum rekstraraðila að almenningsmarkaði í Tryggvagötu 19, að því gefnu að samningar náist við ríkið um áframhaldandi húsaleigusamning á húsnæðinu. Þetta var samþykkt í borgarráði í dag.

Almenningsmarkaðurinn Kolaportið hefur verið rekinn á fyrstu hæð í Tryggvagötu 19 undanfarin ár en tímabundnum leigusamningi um húsnæðið á milli Reykjavíkurborgar og Framkvæmdasýslu- Ríkiseigna (FSRE) lauk 31. desember síðastliðinn. Í janúar samþykkti borgarráð framlengingu leigusamnings og var eignaskrifstofu heimilað að gera tímabundinn húsaleigu- og rekstrarsamning við Varmdal ehf. til að skapa svigrúm til að ákveða næstu skref.

Borgarráð hefur nú lýst yfir vilja til að auglýsa eftir varanlegum rekstraraðila að almenningsmarkaði í húsnæðinu en samningur við rekstraraðila mun byggja á því að áframhaldandi húsaleigusamningur verði gerður á milli Reykjavíkurborgar og FSRE.

Starfsemin verði góð viðbót við þá sem fyrir er í miðbænum

Verði auglýst eftir rekstraraðila verður horft til niðurstöðuskýrslu starfshóps um almenningsmarkað í Reykjavík. Skipuð verður matsnefnd sem fer yfir innkomin tilboð þar sem boðið leiguverð verður metið til 25% stiga og aðrir matsþættir til 75% stiga. °

Samkvæmt drögum að auglýsingu telst meðal annars til annarra matsþátta farsæl reynsla af sambærilegum verkefnum og að tillaga feli í sér aðstöðu fyrir félagsleg tengsl og frumkvöðla, fjölbreytt vöruúrval á breiðu verðbili, fasta sölubása og svæði undir flóamarkað, viðburðasvæði og að boðið verði upp á ferskvöru og veitingar í bland. Þá verði horft til þess að áætluð starfsemi í húsnæðinu verði góð viðbót við framboð á verslun og þjónustu sem fyrir er í miðbæ Reykjavíkur.

Hliðarinngangur í Kolaportið. Grá hurð, skilti fyrir ofan sem á stendur Kolaportið market