Vika einmanaleikans - Spjallbekkur í Laugardal
Spjallbekk hefur verið komið fyrir í Laugardalnum í tilefni af viku einmanaleikans sem nú stendur yfir. Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, starfsmaður á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, fagnar framtakinu og segir fatlað fólk, eins og aðra, eiga á hættu að einangrast.
Vitundarvakning gegn einsemd og einmanaleika
Um þessar mundir stendur yfir vika einmanaleikans sem er vitundarvakning Kvenfélagasambands Íslands gegn einsemd og einmanaleika. Spjallbekki er að finna víða um heim og er ætlað að hvetja til félagslegra samskipta og draga úr einmanaleika. Þeir eru merktir, til að gefa til kynna að sá sem situr þar er opinn fyrir samtali. Spjallbekkjum er ætlað að skapa vinalegt rými fyrir ókunnuga til að tengjast. Markmið þessara bekkja er að ýta undir samfélagskennd og draga úr einmanaleika og félagslegri einangrun með því að hvetja til lauslegra samræðna.
Hvernig virka spjallbekkirnir?
- Bekkirnir eru sérstaklega merktir sem gefur til kynna að sá sem situr þar sé fús að spjalla.
- Spjallbekkir eru staðsettir á opinberum stöðum eins og í almenningsgörðum, við gönguleiðir, í verslunarmiðstöðvum og samfélagsmiðstöðvum, sem gerir þá auðveldlega aðgengilega fyrir vegfarendur.
- Merkingarnar hvetja fólk til að hefja samtöl, sem eflir tengsl og samfélagskennd. Þeim er ætlað að vera aðgengilegir öllum, óháð aldri eða aðstæðum, og bjóða þannig upp á lágan þröskuld til samskipta.
Stígum út úr einmanaleikanum
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, starfsmaður á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar var viðstödd þegar spjallbekknum var komið fyrir við inngang Grasagarðsins í gær. Steinunn Ása fagnar viku einmanaleikans; mikilvægt sé að vekja athygli á að öll getum við upplifað einmanaleika, og hvetur hún öll til að nota spjallbekkinn.
„Fatlað fólk eins og annað fólk er í mikilli hættu á að verða einmana, meira að segja þegar það er fullt af fólki í kringum okkur getum við upplifað einmanaleika. Við viljum að börnunum okkar líði vel, að fjölskyldunni okkar líði vel og að vinum okkar líði vel. Einmanaleiki er algengur og það sem við þurfum að hafa í huga er að óttast ekki að stíga út úr einmanaleikanum. Það er margt sem hægt er að gera og það er mikilvægt að vekja athygli á því. Þessi bekkur er staður til þess setjast niður, gleyma símanum um stund, líta upp og tala saman. Í þessari viku hvet ég fólk til þess að hringja í vini, hitta fólk, fara í sund, fara á kaffihús og leita að menningunni, hún er úti um allt. Tökum spjall, það hressir og kætir", segir Steinunn Ása glöð í bragði.
Boðið verður upp á fjölbreytta viðburði á meðan á vitundarvakningunni stendur, þar á meðal á bókasöfnum Reykjavíkurborgar.