„Við erum málsvarar notenda og stöndum vörð um hagsmuni þeirra“

Á myndinni eru fulltrúar í velferðarráði Reykjavíkurborgar ásamt þeim sem fram komu á fundinum.
Hópmynd af þeim sem fram komu á velferðarkaffi 7. mars og fulltrúum í velferðarráði.

Það var þétt setið í samfélagshúsinu á Vitatorgi í morgun, þegar Velferðarkaffi, opinn fundur velferðarráðs Reykjavíkurborgar, var haldinn þar. Málaflokkur heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var til umræðu. Greinilegt er að hann er mörgum hugleikinn en um 130 manns fylgdust með fundinum, ýmist á staðnum eða í gegnum streymi. 

Reykjavíkurborg rekur fjölbreytt húsnæðisúrræði fyrir einstaklinga sem hafa verið heimilislausir og hafa bæði miklar og flóknar þjónustuþarfir. 26 einstaklingar fá sólarhringsþjónustu frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Þar af búa 11 konur í íbúðakjarna, 15 karlar í langvarandi búsetu og sex í tímabundnu úrræði fyrir einstaklinga sem eru að taka sín fyrstu skref í húsnæði eftir langvarandi heimilisleysi.

Þessu til viðbótar veitir húsnæðishluti Vettvangs- og ráðgjafarteymi Reykjavíkurborgar (VoR-teymið) um 50 einstaklingum stuðning, ýmist í „housing first“-íbúðum sem staðsettar eru víða um borgina eða smáhúsum sem einnig er að finna á nokkrum stöðum í bænum. „Housing first“ eða „húsnæði fyrst“ vísar til þess að einstaklingar geti fengið húsnæði, án þess að því fylgi skilyrði um að neyta ekki áfengis eða vímuefna.

Þau sem sinna vettvangshluta VoR-teymisins veita stuðning víða, til að mynda í neyðarskýlum borgarinnar en einnig í bílum, tjöldum, stigagöngum, bílastæðahúsum og svo framvegis.

Samstaða um hvert málaflokkurinn stefnir

Soffía Hjördís Ólafsdóttir, deildarstjóri í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, fór yfir þróun málaflokksins á undanförnum og árum og sagði frá nýrri aðgerðaáætlun sem mikil samstaða ríkir um en hún var samþykkt einróma í borgarstjórn fyrr á þessu ári.

Aðgerðirnar í heild eru tólf talsins og þær má skoða hér.  

Í aðgerðunum felst meðal annars að meta betur og markvisst þarfir einstaklinga þegar þeir leita allra fyrst eftir neyðarþjónustu. Unnið er að því að þrepaskipta þjónustunni og minnka þann tíma sem einstaklingar dvelja í neyðarskýlum. „Við erum að reyna að koma í veg fyrir að fólk festist til lengri tíma í heimilisleysi, meðal annars með því að meta þarfir fólks þegar það mætir í fyrsta skipti í neyðarþjónustu. Þá getum við meðal annars vísað fólki annað, í vægari úrræði, ef völ er á.“ Einstaklingar þurfi einnig að eiga virka húsnæðisumsókn til að gista í neyðarskýli, svo hægt að tryggja framgang í húsnæðismálum. „Neyðarskýli er fyrir þau sem eru að bíða eftir að fá úthlutað húsnæði eða einhverra hluta vegna geta ekki útvegað sér húsnæði sjálf og þurfa þá neyðarskjól til skemmri tíma.“

Notandinn sérfræðingur í sínu máli

Soffía tók fram að samhliða fjölgun húsnæðisúrræða þurfi að styrkja VoR-teymið, því lykilatriði sé að fólk sem hefur verið heimilislaust fái stuðning við að halda heimili. Næst á dagskrá voru einmitt fulltrúar VoR-teymisins, þau Þorbjörg Valgeirsdóttur, forstöðumaður teymisins, Kolfinna Arndísardóttir, teymisstjóri húsnæðishluta þess og Simon Agust Steinsson, teymisstjóri vettvangshluta. Þjónusta teymisins, hvort sem er á vettvangi eða í húsnæði, byggir á skaðaminnkandi nálgun og notendamiðaðri nálgun. „Við erum málsvarar notenda og stöndum vörð um hagsmuni þeirra. Okkar þjónusta byggir á því að notendur er sérfræðingar í sínum málum. Það er okkar hlutverk að sjá hverjar þeirra langanir og þrár eru, hvert þeir stefna í búsetu og hvernig við getum best mætt þeirra þörfum,“ sagði Kolfinna.

Hún sagði starfsfólk VoR-teymisins verða vart við ýmsar áskoranir sem notendur þjónustunnar takist á við á hverjum degi. Rafvæðing þjónustu og tilkoma rafrænna skilríkja geti til að mynda verið hindrun fyrir fólk sem ekki er alltaf með aðgengi að síma. Þá geti samskipti milli kerfa verið flókin og ýmis úrræði sem standa íbúum samfélagsins til boða séu þeim ekki aðgengileg.

Byggja brú milli notenda og kerfisins

Starfsfólk vettvangshluta teymisins ver stórum hluta síns tíma í að ferðast á milli staða til að hitta fólk þar sem það er statt hverju sinni á. „Ef fólk heldur til einhvers staðar, þá er mikilvægt að við mætum þangað. Við viljum vera stöðugur punktur í ólgu lífsins fyrir skjólstæðinga okkar. Við reynum að byggja brú á milli skjólstæðinga okkar og kerfisins,“ sagði Simon.  

„Við viljum vera stöðugur punktur í ólgu lífsins fyrir skjólstæðinga okkar.“ 

Þau voru öll sammála um mikilvægi þess að byggja upp traust milli starfsfólks teymisins og notenda. Það skili sér á endanum í betri þjónustu við þá í kerfinu öllu. „Það er ekki fyrr en við þekkjum fólk og það þekkir okkur, að við getum farið að vinna með því. Við gerum það með því að taka mið af óskum, vonum og draumum hvers einstaklings fyrir sig.“

Heimahjúkrun fyrir þau sem ekki eiga heimili

Arndís Vilhjálmsdóttir er annar tveggja hjúkrunarfræðinga frá Heimahjúkrun Reykjavíkurborgar sem starfa í málaflokki heimilislausra í Reykjavík. Teymið sinnir hjúkrun í neyðarskýlum, á íbúðakjörnum fyrir fólk með fíknivanda, í „housing first“-íbúðum og annars staðar þar sem þörf krefur. Arndís sagði hlutverk teymisins ekki síst að reyna að tryggja samfellu í þjónustu við hópinn og koma málum í réttan farveg. „Eins er mikilvægt að valdefla skjólstæðingana inn í almenna kerfið. Við eigum öll rétt á þeirri heilbrigðisþjónustu sem völ er á og það er mikilvægt að geta leiðbeint fólki, til dæmis inn á heilsugæslu eða í rétt úrræði.“

Dagleg verkefni teymisins séu margs konar en meðal annars að meta sýkingar, fylgjast með lífsmörkum, sinna sáraskiptum eða fylgja einstaklingum eftir í spítalainnlagnir.
Í starfi sínu segist Arndís hafa orðið vör við hversu hratt hópurinn eldist, sem þurfi að bregðast við sem allra fyrst. „Það er óboðlegt að fólk sem komið er með heilsu- og færnimat sé í neyðarskýlum. Fólk sem er metið fyrir sólarhrings heilbrigðisþjónustu en fær hana ekki. Hefðbundin hjúkrunarheimili hafa ekki hafa ekki þessa sérhæfðu nálgun en þjónusta við hópinn þarf að byggja á hugmyndafræði skaðaminnkunar og þarfnast sérhæfingu starfsfólks.“

Í lok fundarins var opnað fyrir spurningar og sköpuðust mjög líflegar umræður sem Sanna Magdalena Mörtudóttir, formaður velferðarráðs, stýrði.