Vesturbæjarlaug: Niðurstöður íbúasamráðs um gufuböð

Róbert Reynisson
Ný sána í Vesturbæjarlaug. Viður, ekkert fólk, steinar í forgrunni.

Farið var í samráð við notendur Vesturbæjarlaugar um útfærslu nýju sánanna sem opnaðar voru 2. desember og eru niðurstöður nú kynntar.

Samráð í kjölfar endurbóta 

Við endurbætur á elsta hluta laugarinnar, sem gerðar voru til að bæta aðgengi og öryggi, opnaðist tækifæri til að hanna nýtt sánasvæði í nánu samtali við notendur. Í vor var gestum boðið að senda inn hugmyndir og alls bárust 75 tillögur. Í framhaldinu svöruðu 618 gestir könnun þar sem fjórar leiðir voru bornar saman: 

  • Önnur sánan þögul, í hinni má tala. 
  • Önnur sánan með ilm, hin án ilms. 
  • Önnur sánan fyrir konur, hin fyrir karla. 
  • Önnur sánan heitari en hin.  
Tafla sem sýnir niðurstöður íbúasamráðs um gufuböð í Vesturbæjarlaug

Jafnar niðurstöður – meirihluti fyrir tveimur leiðum 

Niðurstöðurnar reyndust mjög jafnar, en meirihluti var fyrir því að: 

  • Önnur sánan væri þögul og í hinni mætti tala.
  • Önnur sánan væri heitari en hin. 

Athygli vekur að sá kostur sem fékk flest jákvæð stig var mismunandi hitastig (1643 stig) og að sá kostur sem fékk fæst stig var ilmurinn (1456 stig). Þá mátti sjá að kynjaskipt sána fékk bæði flest einstök svör sem „best“ og „verst“, sem skýrir jafnar heildarniðurstöður. 

Útfærslan sem varð fyrir valinu tekur mið af þessum niðurstöðum, það er þögla sánan er heitari, en í hinni má spjalla. 

Skífurit með niðurstöðum íbúasamráðs um gufuböð í Vesturbæjarlaug. Hægra megin mynd frá gufuböðunum.

Þemadagar gætu komið síðar 

Þó að ilm- og kynjaskiptar sánur hafi ekki fengið meirihluta í daglegri notkun komu fram skýrar óskir um fjölbreytni. Ekki er útilokað að slík útfærsla fái rými síðar, til dæmis með þemadögum, gusum eða tímabundinni kynjaskiptingu. Áfram verður lögð áhersla á gott samtal við notendur um þróun sánanna. 

Infrarauða sánan í Vesturbæjarlaug

Nýja infrarauða sánan í Vesturbæjarlaug.