Vesturbæjarlaug lokað vegna viðgerðar
Vesturbæjarlaug verður lokað klukkan 20.00 í kvöld og verður hún lokuð í um það bil viku. Því miður hefur komið í ljós galli á málningarvinnu á laugarbotninum, sem hefur valdið því að málning er tekin að flagna af laugarkarinu.
Viðhaldsframkvæmdir hafa staðið þar yfir í sumar þar sem markmiðið var að bæta aðstöðu gesta og endurnýja eldri mannvirki. Laugin var opnuð á ný 19. júlí síðastliðinn.
Nú hefur komið í ljós að málningin er farin að flagna af laugarkarinu sem rekja má til mistaka í grunnvinnu við endurbæturnar. Verktakinn sem bar ábyrgð á verkinu harmar þetta mjög, tekur fulla ábyrgð og mun standa straum af öllum kostnaði við úrbætur.
Unnið hratt og örugglega næstu daga
Ákvörðun hefur verið tekin um að loka lauginni klukkan 20.00 í kvöld, mánudaginn 18. ágúst. Veðurskilyrði næstu daga gera kleift að vinna verkið hratt og örugglega, og er því mikilvægt að ráðast í úrbætur strax.
Stefnt er að því að Vesturbæjarlaug verði opnuð aftur áður en skólasund hefst.
Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að valda. Við hlökkum til að taka á móti gestum að nýju að viðgerð lokinni.