Vesturbæjarlaug lokað að hluta tímabundið vegna flögnunar á málningu

Vesturbæjarlaug séð úr lofti.

Reykjavíkurborg hefur, í samráði við starfsfólk heilbrigðiseftirlitsins, tekið ákvörðun um að loka laugarkari Vesturbæjarlaugar tímabundið á meðan unnið er að lausn á flögnun á málningu.  

Ráðist var í umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir á lauginni í sumar með það að marki að bæta aðstöðu gesta og endurnýja eldri mannvirki. Fljótlega eftir að laugin opnaði aftur fór að bera á að málning flagnaði af botni laugarinnar. Var lauginni þá lokað aftur og ráðist í úrbætur. 

Málning sem flagnað hefur af laugarkari Vesturbæjarlaugar.
Málning sem flagnað hefur af laugarkari Vesturbæjarlaugar.

Sú vinna skilaði þvi miður ekki tilætluðum árangri og því er nauðsynlegt að loka laugarkarinu að nýju. Ekki er vitað hversu lengi þessi lokun mun standa yfir. 

Heitir pottar, eimbað og búningsklefar verða áfram opin á meðan unnið er að lausn.