Verkið Bogi eftir Sigurð Árna Sigurðsson valið á Orkureit

„Verkið verður staðsett á fleiri en einum stað, í almenningsgarði, útivistarsvæði, stigahúsi og bílakjallara og virkjar þannig rýmið með áhugaverðum hætti," segir meðal annars í umsögn dómnefndar.
mynd af húsi, gróðri og bogalistaverki.

Niðurstaða er komin í samkeppni um listaverk í almannarými á Orkureit 2025. Verk Sigurðar Árna Sigurðssonar, Bogi er vinningstillagan og stefnt er á að það verði komið upp árið 2026.

Í samningum Reykjavíkurborgar og lóðarhafa eru sett fram markmið um að ákveðinni fjárhæð verði varið í listsköpun í almannarýmum á uppbyggingarsvæðum til að tryggja gæði og gott umhverfi í borginni. Verkin voru valin úr innsendum tillögum í samkeppni sem haldin var vegna listaverka í almannarými á Orkureit síðastliðið haust.

Styrkir heildarmynd Orkureitsins

Í umsögn dómnefndar segir: „Listaverk Sigurðar Árna Sigurðssonar, Bogi, styrkir heildarmynd hins nýja Orkureits með því að tengja saman ólíkar íbúðabyggingar, víðáttumikið almannarými og fjölbreytta sameign. Verkið samanstendur af nokkrum bogum úr ryðfríu stáli í mismunandi stærðum, sem komið verður fyrir við nýbyggingarnar á Orkureit. Verkið verður staðsett á fleiri en einum stað, í almenningsgarði, útivistarsvæði, stigahúsi og bílakjallara og virkjar þannig rýmið með áhugaverðum hætti. Verkið vekur upp tilfinningu fyrir umhverfinu og samhengi hlutanna. Bogi, eða hálfur hringur birtist vegfarendum á yfirborði jarðar í almenningsgarði en gengur einnig niður í bílageymslu, svo dæmi sé tekið. Þannig tengir verkið bæði saman hin ólíku svæði almannarýmisins á Orkureit, en kallar einnig fram hugmyndina um það sem er sýnilegt og það sem er hulið. Verkið myndar skugga eftir sólargangi sem og fallega speglun, þar sem það verður meðal annars staðsett í tjörn,“ segir í umsögninni.

Kennileiti fyrir staðinn

„Gönguleiðir í almannarými á Orkureit tengja nærliggjandi hverfi við Laugardalinn, þannig að umhverfið og listaverkin verða í alfaraleið. Listaverkið Bogi er einfalt í formi, sem fellur vel að þeirri hönnun sem nú þegar er fyrirhuguð í almannarými Orkureits. Það er einnig á stærðarskala sem nær að takast á við umfang bygginganna og má ætla að það geti orðið kennileiti fyrir staðinn,“ segir enn fremur í umsögn dómnefndar.

Sigurður Árni Sigurðsson hefur haldið yfir 50 einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum víða um heim. Hann var fulltrúi Íslands á Tvíæringnum í Feneyjum árið 1999, verk eftir hann var valið táknmynd Reykjavíkur, Menningarborgar Evrópu árið 2000 og árið 2020 var stór yfirlitssýning sett upp í Listasafni Reykjavíkur þar sem farið var yfir feril listamannsins frá upphafi til dagsins í dag. 

Stærri verk á opinberum stöðum

Hann er virkur þátttakandi í íslensku myndlistarlífi, bæði með sýningum, kennslu og umræðu. Sigurður Árni hefur starfað sem gestakennari við Listaháskóla Íslands, Myndlistarskóla Reykjavíkur og við Listaháskólann í Montpellier - École Supérieure des Beaux Arts Montpellier í Frakklandi og haldið fyrirlestra um myndlist bæði á Íslandi og í Frakklandi. Auk þess að eiga verk á öllum helstu listasöfnum landsins, opinberum- og einkasöfnum víða erlendis hafa stærri verk verið sett upp eftir hann á opinberum stöðum. Má þar nefna útilistaverkið Sólalda við Sultartangavirkjun, Ljós í skugga í Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri, útilistaverkið L‘éloge de la nature í bænum Loupian í Suður-Frakklandi, vegglistaverkið Sól úr norðri á Vinastræti 14-16 í Urriðaholti í Garðabæ og Leikur með ljós og skugga á Héðinsreit.