
Það var fjölmenni á menntabúðunum sem Mixtúra á skóla- og frístundasviði Reykjavíkur, Menntavísindasvið HÍ og Faghópur um skapandi leikskólastarf héldu síðastliðinn fimmtudag. Þar voru kynnt um 40 skapandi, skemmtileg og áhugaverð verkefni í skólastarfi sem tengjast tækni og/eða eflingu sköpunar með börnum og ungmennum.
Mörg spennandi verkefni
Meðal verkefna voru: Tónsköpun, Náttúran undir smásjánni, Bekkjarhagkerfið, Leikjavæðing náms með aðstoð gervigreindar, Skapandi kennsla í Íslendingasögum, Snjallmenni í kennslu, Tækifæri á tómu borði, Skapandi skil í unglingadeild, Snjallræði og mörg önnur.

Nýjar hugmyndir og innblástur
Menntabúðir eru vettvangur þar sem starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og önnur áhugasöm koma saman til að miðla af eigin reynslu og þekkingu og afla sér fróðleiks frá öðrum þátttakendum. Samtal um fjölbreytt og skapandi starf er í aðalhlutverki í menntabúðum og má gera ráð fyrir að mörg hafi farið heim að deginum loknum með nýjar hugmyndir eða innblástur sem einhverjir heppnir nemendur fá að njóta á næstunni.
