Vegna óveðurs og ófærðar í Reykjavík 28. október
Aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins sendi fyrr í dag út áríðandi hvatningu til fólks á höfuðborgarsvæðinu um að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu og helst að vera komin í heimahús fyrir klukkan 15. Reykjavíkurborg heldur úti og hefur í sumum tilvikum aukið nauðsynlega þjónustu við viðkvæma hópa auk þess að unnið er að því að halda vegum og stígum opnum eins og mögulegt er. Önnur þjónusta sem ekki telst nauðsynleg hefur verið skert.
Vetrarþjónusta
Starfsfólk vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar hóf vinnu við snjómokstur og hálkuvarnir seint á mánudagskvöld til að greiða fyrir leið Strætó. Um kl. 04 í aðfaranótt þriðjudags var svo hafist handa við mokstur á stofnvegum og á stígakerfi. Sú vinna hefur haldið áfram í allan dag þar sem snjó hefur haldið áfram að kyngja niður.
Í tilkynningu frá aðgerðarstjórn höfuðborgarsvæðisins var ítrekuð sú beiðni til ökumanna sem eru á vanbúnum ökutækjum að vera ekki í umferðinni í þessari miklu vetrarfærð sem er á höfuðborgarsvæðinu í dag. Borið hefur á miklum vandræðum í umferðinni vegna bíla sem ekki eru nægilega vel búnir fyrir þessar aðstæður. Öll vanbúin ökutæki verða fjarlægð á kostnað eigenda.
Velferðarþjónusta
Nokkrar tafir hafa orðið á heimaþjónustu Reykjavíkurborgar. Gera má ráð fyrir áframhaldandi töfum í dag og verður þjónustu forgangsraðað eftir mikilvægi.
Neyðarskýlin tvö fyrir karlmenn verða opnuð klukkan 14 í dag, þegar kaffistofa Samhjálpar lokar, í stað klukkan 17 eins og vant er. Konukot, sem er neyðarskýli fyrir konur, opnar klukkan 15, þegar Skjólið lokar. Gerðar verða ráðstafanir til að flytja einstaklinga sem þess óska á milli kaffistofu Samhjálpar og Skjólsins í neyðarskýli.
Unnið er að því að einstaklingar sem sækja Smiðjuna, Opus og Iðjuberg, sem allt eru vinnu- og virkniúrræði Reykjavíkurborgar, fari fyrr heim í dag. Margir þeirra búa á íbúðakjörnum á vegum Reykjavíkurborgar. Starfsfólk íbúðakjarnanna mætir fyrr á kvöldvakt, ef kostur er, til að bregðast við stöðunni.
Skólaþjónusta
Foreldrar hafa verið beðin um að sækja börn sín sem allra fyrst í leikskóla svo hægt sé að verða við tilmælum lögreglu að fólk verði komið heim fyrir klukkan 15 í dag.
Í dag er síðasti dagur haustfrís í grunnskólum og lokað í frístund af því tilefni. Fólk er hvatt til að fylgjast með fréttum i fyrramálið áður en börn eru send af stað í skóla vegna óvissu með veður og færð.
Sundlaugar og söfn
Öllum sundlaugum, söfnum og bókasöfnum, Ylströndinni og Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var lokað um klukkan 13:30 í dag til að gefa starfsfólki og gestum færi á að koma sér heim áður en versta óveðrið gengur yfir höfuðborgarsvæðið. Garðskála og lystihúsi Grasagarðsins var lokað klukkan 14 í dag.
Þjónustuver
Afgreiðsla þjónustuvers Reykjavíkurborgar í Borgartúni 12-14 lokuð frá klukkan 14 en áfram verður hægt að hafa samband í síma 411-111, í gegnum netspjall og ábendingavefinn, https://abendingar.reykjavik.is/
Strætó
Truflanir hafa orðið á leiðakerfi Strætó þar sem margir vagnar eru fastir vegna færðar og umferðar. Akstri verður þó haldið áfram eftir bestu getu og lögð áhersla á að vagnar séu á hverri leið.
Þjónustuver Strætó er opið, en móttaka á Hesthálsi mun loka kl. 14:00. Samkvæmt tilkynningu frá aðgerðastjórn höfuðborgarsvæðisins er fólk hvatt til að huga að heimferð sem allra fyrst, þar sem veður og færð versna eftir því sem líður á daginn.