Varað við asahláku næstu daga

Vakin er athygli á að spáð er hlýnandi veðri og rigningu næstu daga með mögulegri asahláku.
Þetta þýðir að hætta getur skapast vegna hálku og leysinga á götum, stígum og lóðum, sérstaklega þegar klaki og snjór bráðna hratt.
Hreinsun niðurfalla
Starfsfólk hverfastöðva undirbýr nú borgarlandið fyrir asahláku. Verið er að moka snjó frá niðurföllum og þar sem vel er þekkt að vatn safnist upp. Þá verður starfsfólk einnig á vakt alla helgina og sinnir verkefnum til að draga úr vatnssöfnun.
Íbúar eru beðnir um að ganga úr skugga um að niðurföll við heimili sitt séu opin og laus við klaka og snjó, til að tryggja eðlilegt frárennsli og koma þannig í veg fyrir vatnstjón.
Niðurföll í Borgarvefsjá
Í Borgarvefsjá er hægt að sjá hvar niðurföll í götum eru staðsett (ekki inni á lóðum). Hægt er að finna niðurföll með því að slá inn heimilisfang í leitargluggann efst til hægri. Þá birtast fráveitulagnir, niðurföll og fleira.
Hægt er að þysja inn á kortið með því að nota hjólið á músinni eða nota plús og mínus hnappana sem eru fyrir neðan leitargluggann.