Úthlutað úr Vestnorræna höfuðborgarsjóðnum 2025

Árlegur stjórnarfundur Vestnorræna höfuðborgarsjóðsins fór fram þann 24. júní í Ráðhúsi Reykjavíkur. Stjórnarmeðlimir eru borgarstjórar og borgarfulltrúar Nuuk, Tórshavn og Reykjavíkur en hlutverk sjóðsins er að styðja við menningarsamstarf milli borganna þriggja. Í ár bárust 50 umsóknir um styrkveitingar en þar af bárust 23 frá Íslandi og hafa þær aldrei verið fleiri.
Árið 2023 var ákveðið innan stjórnarinnar að hækka þá heildarupphæð sem er til úthlutunar fyrir árin 2024 og 2025, en þá hafði safnast saman talsverður afgangur frá úthlutunum sem áttu sér stað á meðan heimsfaraldur gekk yfir. Hver borg hafði því úr 300 þúsund dönskum krónum að spila við úthlutanir sínar í ár, líkt og í fyrra.
Menningarborgin Reykjavík fór yfir umsóknir og voru umsagnir um þær lagðar fyrir stjórnarmeðlimi sjóðsins á Íslandi. Ákveðið var að styrkja 11 verkefni en við ákvörðun stjórnar er meðal annars metið hvort efni og umfang verkefna samrýmist reglum og markmiðum sjóðsins.
Verkefnin eru:
- West Nordic Voices at RIFF – Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík
- Unison String Festival – Anna Hugadóttir
- Sangturné til Faroerne – Benni Hemm Hemm og kórinn
- Islands – Icescapes: Climate Change, Social Change – Guðjón Bjarnason og Magnea Marinósdóttir
- Hoym – Tónleikaferðalag – Hljómsveitin Hoym
- An Imortelle – Katrín Bára Elvarsdóttir
- Vestnordiske Stemmer – Norræna húsið
- Voices from the North: A multilingual literary exchange – Reykjavík Poetics
- Heysahorn Pan-Nordic Assembly – Snæbjörn Helgi Arnarsson Jack
- Klang REYK/THOR – Spectrum sönghópur
- Söguhringur Project – Ós Pressan
Reykjavíkurborg óskar styrkhöfum til hamingju og vill um leið þakka öllum þeim sem sóttu um styrkveitingar fyrir góðar og áhugaverðar umsóknir. Fyrir hönd borgarinnar sátu í stjórn sjóðsins þau Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstóri, og borgarfulltrúarnir Alexandra Briem og Kjartan Magnússon.
Í stjórn sjóðsins sitja borgarstjórar Nuuk, Tórshavn og Reykjavíkur, auk tveggja borgarfulltrúa frá hverri borg. Hlutverk sjóðsins er að styðja við menningarsamstarf milli borganna þriggja en í ár bárust alls 51 umsókn, en þær hafa aldrei verið fleiri. Sendinefndir á vegum Nuuk og Tórshavn dvöldu í Reykjavík og að stjórnarfundi loknum var þeim boðið til hátíðarkvöldverðar í Höfða. Daginn eftir var farið í fræðsluferð um Hellisheiðarvirkjun en einnig fengu gestirnir góðar kynningar á húsnæðis-og skipulagsmálum og að lokum á Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Að lokum var það sagnfræðingurinn og varaborgarfulltrúinn Stefán Pálsson sem leiddi hópinn í sögugöngu frá Háskóla Íslands að kvosinni sem var endahnúturinn í skemmtilegri dagskrá.