Ursula Meier hlýtur heiðursverðlaun á RIFF
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur veitti svissnesku kvikmyndagerðarkonunni Ursulu Meier heiðursverðlaun RIFF fyrir framúrskarandi listfengi.
Verðlaunaafhendingin fór fram í bransapartýi RIFF í samstarfi við svissneska sendiráðið á Slippbarnum síðastliðinn fimmtudag, en RIFF hefur gefið svissneskri kvikmyndagerð sérstakt heiðurssæti í dagskrá hátíðarinnar í ár.
Hrönn Marinósdóttir stjórnandi Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar var viðstödd verðlaunaafhendinguna og Villi Neto sá um skemmtanahaldið.
Meier vakti heimsathygli með fyrstu kvikmynd sinni í fullri lengd, Home (2008), sem var sýnd á Cannes og hlaut lof fyrir hugmyndaríkan og næman frásagnarstíl. Með framhaldsmyndinni Sister (2012), sem hlaut Silfurbjörn á Berlínarhátíðinni, styrkti hún stöðu sína sem ein mikilvægasta rödd evrópskrar kvikmyndagerðar. Í myndum hennar má finna bæði næmni og pólitíska dýpt; þær kanna tengsl fjölskyldu, samfélags og einstaklinga með blöndu af hlýju, húmor og samfélagsgagnrýni.
Meier hefur jafnframt unnið til fjölda verðlauna fyrir stuttmyndir sínar og heimildaverk og er nú orðin fyrirmynd næstu kynslóðar kvikmyndagerðarfólks. Hún sameinar skarpt auga fyrir smáatriðum og næmt innsæi í mannlega breyskleika og skapar þannig kvikmyndir sem hreyfa við áhorfendum á sama tíma og þær varpa ljósi á samtímann.