Uppfærð fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026 sýnir traustan rekstur
Tillaga meirihluta borgarstjórnar að uppfærðri fjárhagsáætlun var lögð fram í borgarráði í morgun. Þar er tekið mið af nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands, breytingum á fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur. Í uppfærðri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir rekstrarafgangi upp á rúmlega 3,4 milljarða króna árið 2026 í stað 4,8 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að öll markmið fjármálastefnu séu uppfyllt og rekstur í jafnvægi.
Tillögunni var vísað til seinni umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026 og fimm ára tímabilið til 2030 í borgarstjórn þriðjudaginn 2. desember næstkomandi.
Lagðar voru fram nýjar aðgerðir sem endurspegla lykiláherslur samstarfsflokkanna um stuðning við börn, barnafjölskyldur og fjölgun félagslegra leiguíbúða.
Einnig voru lagðar fram tillögur sem byggja á innsendum álitum starfsfólks og almennings um betri nýtingu á fjármunum og tíma í starfsemi borgarinnar, sem unnar verða áfram hjá fagráðum borgarinnar. Markmiðið er að ná fram hagræðingu og skapa aukið fjárhagslegt svigrúm.
Ný þjóðhagsspá
Breyttar forsendur fyrir fjárhagsáætlun eru í samræmi við nýja þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var þann 14. nóvember sl. Í uppfærðri þjóðhagsspá er nú gert ráð fyrir minni hagvexti, hærri verðbólgu og auknu atvinnuleysi. Spáin tekur mið af dræmari útflutningshorfum í kjölfar ýmissa rekstraráfalla undanfarinna mánaða.
Uppfærð spá gerir ráð fyrir 5,2% launaþróun á árinu 2026, sem er um 0,7 prósentustigum hærra en í þjóðhagsspá sem forsendur frumvarps að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar byggir á.
Áhrif tilkynningar um greiðslufall Norðuráls til Orkuveitu Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur lagði fram breytta fjárhagsspá fyrir árið 2026 þann 24. nóvember síðastliðinn vegna þess að Norðurál, stærsti einstaki viðskiptavinur Orkuveitunnar, hefur upplýst félagið um að greiðslufall verði af hálfu fyrirtækisins vegna endurtekinna bilana í álveri þess á Grundartanga. Breytingar á fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur fela í sér:
- 1,0 milljarða króna lægri rekstrarhagnaður á yfirstandandi ári en í fyrri spá.
- Niðurskurð rekstrarkostnaðar um 2 milljarða króna á árinu 2026.
- 6 milljarða króna lækkun fjárfestinga á því ári.
- Lækkun arðgreiðslna um 2 milljarða króna á árinu 2026.
Áætlun um arðgreiðslur í A-hluta var endurskoðuð til samræmis við fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur. Áhrifin eru til lækkunar um 1.871 milljón króna.
Áhrif breyttra forsenda í þjóðhagsspá Hagstofu á fjárhagsáætlun A-hluta Reykjavíkurborgar felast helst í meiri verðbólgu, meiri hækkun launa og lakari horfum á vinnumarkaði. Áhrifin eru til hækkunar á útsvarstekjur sem rekja má til launaþróunar en á móti hafa forsendur um vinnumagn verið dregnar niður. Áhrifin eru neikvæð á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindingar og fjármagnsliði.
Heildaráhrif breyttra forsenda um 1,3 milljarður króna
Heildaráhrif breyttrar fjárhagsspár Orkuveitu Reykjavíkur og nýrrar þjóðhagsspár Hagstofu á rekstrarniðurstöðu A-hluta eru metin neikvæð um 1.332 milljónir króna sem hefur í för með sér að rekstrarniðurstaðan lækkar úr 4.763 milljónir króna í 3.431 milljónir króna að öðru óbreyttu.
Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindingar og verðbætur eru reiknaðir liðir sem ekki hafa áhrif á sjóðstreymi A-hluta og þar með talið veltufé frá rekstri. Heildaráhrifin á sjóðstreymi A-hluta eru neikvæð um 217 milljónir króna og lækkar þannig handbært fé í árslok úr 17.061 í 16.844 milljónir króna.
Gert er ráð fyrir að öll markmið fjármálastefnu séu uppfyllt þrátt fyrir þessar breytingar.
„Uppfærð fjárhagsáætlun sýnir ábyrgan rekstur borgarinnar þar sem staðið verður vörð um mikilvæga þjónustu í samræmi við félagslegar áherslur samstarfsflokkanna. Við munum vinna áfram að hagræðingu í rekstri með það að markmiði að búa til svigrúm til að takast á við frekari uppbyggingu á húsnæði og fjármagna aukna þjónustu við viðkvæma hópa."
Aðgerðir til að draga úr veikindum starfsfólks
Í tillögu að uppfærðri fjárhagsáætlun eru nýjar aðgerðir til að sporna við veikindum og kulnun meðal starfsfólks. Stofna á sérstakt stuðningsteymi sem mun styðja við stjórnendur á starfsstöðum Reykjavíkurborgar þar sem veikindafjarvistir eru miklar, en einnig aðstoða stjórnendur við útfærslu á mönnun með tilliti til starfsemi og mannafla.
Áætlaður kostnaður við stuðningsteymið er um 41 milljón króna en á móti er vænt kostnaðarlækkun vegna virkari fjarvistastjórnunar talin verða á bilinu 480-800 milljónir króna á ári, auk þess sem minni veikindafjarvistir draga úr þjónustuskerðingum og minnka álag almennt á starfsfólk og stjórnendur.
Hagræðing til að skapa aukið fjárhagslegt svigrúm
Tillögur sem byggja á á innsendum álitum frá almenningi sem fengust í gegnum samráðsgátt Reykjavíkurborgar um betri nýtingu á tíma og fjármunum Reykjavíkurborgar voru lagðar fram. Þær verða sendar til meðhöndlunar og útfærslu í fagráðum og miðlægri stjórnsýslu.
Í tillögu borgarstjóra er lagt til að fjárhagslegum ávinningi verði varið til að styrkja áhættuþol borgarinnar og fjármagna mikilvæg stefnumótandi verkefni í samræmi við forgangsröðun sviða og áherslur fagráða.