Uppbygging sem gjörbyltir íþróttaaðstöðu KR

Frá undirritun samkomulags Reykjavíkurborgar og KR. Þórhildur Garðarsdóttir formaður KR og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri.
Þórhildur Garðarsdóttir formaður KR og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri undirrita skjöl

Mikil uppbygging íþróttamannvirkja er hafin á íþróttasvæði Knattspyrnufélags Reykjavíkur (KR) sem mun gjörbylta aðstöðu fyrir starfsemi félagsins til framtíðar. 

Samþykkt var á fundi innkaupa- og framkvæmdaráðs Reykjavíkurborgar á dögunum að gengið verði að tilboði Eykt ehf. sem átti hagkvæmasta tilboðið í nýtt fjölnota íþróttahús KR þar sem verklok er áætluð haustið 2027. Reykjavíkurborg sér um uppbyggingu fjölnota íþróttahúss og er kostnaðaráætlun við framkvæmdina um 3,2 milljarðar króna. Fjölnota íþróttahúsið verður um 6.700 fermetrar að stærð. Þar verður um 4.400 fermetra stór íþróttasalur sem nýtist flestum deildum KR. Í húsinu verður gervigrasvöllur þar sem hægt verður að æfa knattspyrnu og keppa mótsleiki í átta manna bolta.

Mynd sem sýnir teikningu og staðsetningu á nýju fjölnotahúsi KR
Mynd sem sýnir fyrirhugaða byggingu fjölnotahúss á KR vellinum.

Fjárfest í uppbyggingu KR fyrir vel á fjórða milljarð króna

Þá er endurbygging keppnisvallar í Frostaskjóli, sem hefur verið lagður gervigrasi, langt komin og lýkur á næsta ári. KR hefur séð um endurbygginguna á keppnisvellinum í Frostaskjóli og gengið var formlega frá samkomulagi í borgarráð í dag um veitingu fjárstyrks vegna framkvæmdarinnar að upphæð 518 milljónum króna. Samtals er því verið að fjárfesta í uppbyggingu íþróttamannvirkja hjá KR fyrir vel á fjórða milljarð króna næstu misseri.

Bjartir tímar framundan hjá félaginu

Heiða  Björg Hilmisdóttir borgarstjóri segist spennt yfir þeirri uppbyggingu sem er fram undan hjá KR en hún nýtist fyrst og fremst börnum og ungmennum í hinum ýmsu deildum félagsins en einnig  afreksstarfi og styrkir hverfið allt. „Ég samgleðst KR með þá uppbyggingu á aðstöðu sem er hafin. Ég skynja mikinn kraft í félaginu og er sannfærð um að það eru bjartir tímar fram undan í Vesturbænum með þessari uppbyggingu. Það er mikilvægt fyrir Reykjavíkurborg" 

Þórhildur Garðarsdóttir, formaður KR, segist hæst ánægð með þessa uppbygginguna sem er hafin. „Ég samgleðst öllu KR-samfélaginu með þennan risastóra áfanga. Uppbygging fjölnota íþróttahús, ásamt endurbótum á aðalvellinum, mun gjörbreyta aðstöðu fyrir iðkendur okkar, sérstaklega yngri flokkana. Ég vil líka þakka bygginganefndinni og starfsmönnum Reykjavíkurborgar fyrir framúrskarandi samstarf sem hefur gert þetta að veruleika. Nú eru bjartir tímar fram undan í starfi KR.“