Undirrituðu samning til þriggja ára um Höfða friðarsetur

Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri undirrita samstarfssamning um Höfða friðarsetur.
Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri undirrita samstarfssamning um Höfða friðarsetur.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Silja Bára Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, undirrituðu á dögunum þriggja ára samstarfssamning Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands um Höfða friðarsetur. 

Höfði friðarsetur var stofnað árið 2016 og hefur það að markmiði að stuðla að þverfræðilegum og alþjóðlegum rannsóknum í friðar- og átakafræðum, styðja við upplýsta stefnumótun og auka framboð á kennslu og fræðslu fyrir almenning á sviði friðar- og átakafræða.

Með samningnum, sem gildir frá 2026–2028, skuldbinda Reykjavíkurborg og Háskóli Íslands sig til að vinna að friði í heiminum, jafnt innanlands sem utan. Stofnunin stendur meðal annars fyrir alþjóðlegri ráðstefnu á ári hverju, þar sem sjónum er beint að friðarmálum. Í ár var ráðstefnan haldin þann 10. október undir yfirskriftinni The Imagine Forum – Protecting Rights – Defending Peace. Lögð var áhersla á að skoða hvernig vaxandi einræðishyggja, hnignun lýðræðis og bakslag í mannréttindum ógnar grundvallarforsendum friðar. Sérstaklega var horft til þess hvernig þessar áskoranir birtast í borgum og hafa áhrif á líf almennra borgara, þar sem lýðræðisleg þátttaka, öryggi og aðgengi að réttindum eru lykilforsendur félagslegrar samheldni.

Með samningnum skuldbindur Reykjavíkurborg sig til að greiða 12,5 milljónir á ári til verkefnisins. Háskóli Íslands hýsir verkefnið innan Alþjóðamálastofnunar HÍ og leggur verkefninu til starfsaðstöðu, vinnuframlag og verkefnisstjóra.