Umtalsverðar breytingar í skipulagi þjónustu við fatlað fólk
Ráðist hefur verið í umtalsverðar breytingar í rekstri málaflokks fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg. Markmið breytinganna er metnaðarfullt: Að leitast við að auka gæði þjónustu við fatlað fólk, skýra verkaskiptingu, auka yfirsýn og eftirlit, einfalda verklag, gæta jafnræðis í þjónustu, tryggja sjálfbæran rekstur, draga úr töfum, einfalda ákvörðunartöku og stuðla að aukinni skilvirkni við framkvæmd þjónustu með betri nýtingu fjármagns og mannauðs.
Breyting á stjórnskipulagi málaflokks fatlaðs fólks var hluti af tillögum sem fram komu í greiningu HLH ráðgjafar sem unnin var að beiðni þáverandi borgarstjóra á tímabilinu febrúar til desember 2024. Í skýrslu um greininguna fylgdu 67 tillögur sem varða ýmsa þætti í rekstri málaflokksins, svo sem verklag, skipulag, rekstrarlíkön, stefnumótun og fleira.
Tillögurnar voru kynntar á fundi borgarráðs þann 22. júlí og útlistað hver vinnur þær áfram en það er ýmist velferðarráð, fjármála- og áhættustýringarsvið eða velferðarsvið.
Skýrsluna í heild má skoða í gögnum borgarráðs.
Lögð áhersla á að vinna breytingarnar í sátt
Við breytingarnar færðist rekstur málaflokks fatlaðs fólks frá miðstöðvum borgarinnar til miðlægrar skrifstofu. Þar starfa nú auk skrifstofustjóra, sem sinnir fjármálum, rekstri, stjórnsýslu og þróunarverkefnum, fimm deildarstjórar sem stýra búsetuþjónustu, ráðgjöf og stuðnings- og stoðþjónustu. Ráðgjöf við fatlað fólk fer eftir sem áður fram á miðstöðvunum.
„Þetta eru breytingar ætlaðar til framþróunar fyrir málaflokkinn og fatlað fólk á fyrst og fremst að verða vart við skilvirkari og öflugri þjónustu.“
Í breytingaferlinu hefur verið lögð áhersla á góða samvinnu við þau sem starfa innan málaflokksins hjá Reykjavíkurborg, svo sem forstöðumenn sambýla og íbúðakjarna fyrir fullorðið fatlað fólk, stjórnendur, ráðgjafa og annað starfsfólk í málaflokknum. Meðal annars hafa verið haldnir stórir vinnufundir og unnin SVÓT-greining til að draga fram styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri breytinganna. Skipulagsbreytingarnar tóku gildi 1. febrúar og telur Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, að vel hafi tekist til. „Þetta eru breytingar ætlaðar til framþróunar fyrir málaflokkinn og fatlað fólk á fyrst og fremst að verða vart við skilvirkari og öflugri þjónustu. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með áhuga og jákvæðni starfsfólks og hafa allir lagst á árarnar við að láta þetta ganga upp. Það hefur verið lykilinn að því hvað þessi umbreyting hefur tekist vel til. Það sem við sjáum núna eftir þetta sjö mánaða ferli er að við erum á góðri leið með að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með. Við höfum aukna yfirsýn, verkaskipting er skýrari og ákvörðunartökuferli einfaldara.“
Efla gagnadrifna ákvörðunartöku í samstarfi við Bloomberg og Harvard
Á fundi borgarráðs var jafnframt kynnt verkefni sem Reykjavíkurborg bauðst að taka þátt í á vegum Bloomberg-Harvard í Bandaríkjunum og snýr að því að efla gagnadrifna ákvörðunartöku innan borgarinnar. Var ákveðið að rýna rekstur á búsetu fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg. Sex íbúðakjarnar, sem allir höfðu farið 5% eða meira fram úr fjárhagsáætlun síðasta árs, voru valdir til þátttöku. Innleiðing verkefnisins hófst svo formlega þann 5. maí með lykilaðilum í verkefninu og því lýkur í árslok 2025.
Markmiðið er að helmingur íbúðakjarnanna verði innan fjárheimilda í lok árs 2025 og allir sex í lok árs 2026. Einnig er stefnt að því að lækka veikindahlutfall um 1,5% á íbúðakjarna, að fjöldi háskólagenginna starfsmanna verði að lágmarki 30% og að 50% starfsfólks og 100% forstöðumann hafi lokið skyldunámskeiðum.
„Við leitumst við að ná fram jákvæðum breytingum, bæði hvað varðar rekstur en ekki síður hvað varðandi betri líðan starfsfólks.“
Til að ná fram markmiðunum fá forstöðumenn íbúðakjarnanna markvissa aðstoð. Með þeim eru haldnir reglulegir fundir og mikil áhersla er lögð á að ekki verði dregið úr gæðum þjónustu. Rannveig segir vinnuna lofa afar góðu. „Með mikilli handleiðslu og stuðningi frá sérfræðingi á vegum Bloomberg-Harvard höfum við náð að innleiða þetta verklag. Við leitumst við að ná fram jákvæðum breytingum, bæði hvað varðar rekstur en ekki síður hvað varðandi betri líðan starfsfólks sem skilar sér í enn betri þjónustu. Of snemmt er að fullyrða um árangur en verkefninu lýkur í lok árs 2025. Við erum ekki í vafa um að við náum árangri og erum þegar farin að leggja drög að innleiða sambærilegt verklag í annarri þjónustu á velferðarsviði. Verkefnið felur í sér áherslu á að nýta gögn til að ná fram breytingum í þjónustu sviðsins. Þetta er lærdómsferli sem við munum draga lærdóm af til úrbóta í fleiri þjónustuþáttum.“