Umhverf­ismats­skýrsla til kynn­ingar

Með breytingum á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verður ljósastýring við gatnamótin afnumin og leið Borgarlínu komið fyrir í sérrými.
yfirlitskort af gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegs.

Kynningarfundur um umhverfismatsskýrslu vegna gatnamóta Reykjanesbrautar og Bústaðavegar, ásamt hluta af 3. lotu Borgarlínu milli Vogabyggðar og Stekkjarbakka, verður haldinn mánudaginn 25. ágúst klukkan 17.00.

Á fundinum munu Anna Rut Arnardóttir og Berglind Hallgrímsdóttir frá EFLU fara yfir niðurstöður umhverfismatsins. Umhverfismatsskýrslan er nú til kynningar hjá Skipulagsstofnun.

Fundurinn verður haldinn í salnum Vindheimum á 7. hæð í húsakynnum Reykjavíkurborgar, Borgartúni 14, eystri inngangur og eru öll velkomin.

Verkefnið er hluti af Samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og unnið í samstarfi Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Betri samgangna.

Markmiðið er að efla samgöngur allra ferðamáta, draga úr umferðartöfum á háannatíma og auka umferðaröryggi vegfarenda.

Umhverfisáhrif metin

Umhverfisáhrif fyrirhugaðra framkvæmda hafa nú verið metin og niðurstöður birtar í umhverfismatsskýrslu sem er til kynningar í Skipulagsgáttinni

Í umhverfismatsskýrslunni er fjallað um áhrif á loftslag, fornminjar, fugla, jarðmyndanir, hljóðvist, loftgæði, landslag og sjónræna þætti, náttúruminjar, samgöngur og umferðaröryggi, útivist, vatnafar, vatnalíf og vatnshlot.

Með breytingum á gatnamótum Reykjanesbrautar og Bústaðavegar verður ljósastýring við gatnamótin afnumin og leið Borgarlínu komið fyrir í sérrými.

Frestur til athugasemda er til 16. september 2025.

Skriflegar athugasemdir skulu sendar í gegnum Skipulagsgáttina, til Skipulagsstofnunar, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík, eða á netfangið skipulag@skipulag.is.

Upptaka af fundinum komin inn

Dagskrá fundarins var eftirfarandi:
17.00 Setning fundarins. Þorsteinn R. Hermannsson, Betri samgöngum.
17.05 Niðurstöður umhverfismats. 
Anna Rut Arnardóttir og Berglind Hallgrímsdóttir, sérfræðingar hjá EFLU, fara yfir helstu niðurstöður, valkosti og hljóðvist 
17.45 Fyrirspurnir og umræður
Fundarstjóri: G. Pétur Matthíasson, forstöðumaður samskiptadeildar Vegagerðarinnar.