Þrjú hundruð manns lögðu drög að nýjum aðgerðum með velferðarstefnu Reykjavíkurborgar
Vel á þriðja hundrað manns komu saman í Hörpu á miðvikudaginn, til að vinna að nýrri aðgerðaáætlun velferðarstefnu Reykjavíkurborgar. Stærsti hluti viðstaddra var frá velferðarsviði en starfsfólk annarra sviða, kjörnir fulltrúar og ýmsir hagaðilar tóku einnig þátt í vinnunni.
Það var árið 2019 að velferðarráð samþykkti að hefja undirbúning að gerð fyrstu velferðarstefnu Reykjavíkurborgar. Í framhaldi af því hófst vinna sem fjöldi fólks innan og utan borgar tók þátt í. Velferðarstefnan tók svo gildi árið 2021 en hún gildir til ársins 2030. Henni fylgdi fimm ára aðgerðaáætlun. Nú er þeim fimm árum að ljúka og því tímabært að leggja drög að nýrri aðgerðaáætlun.
Á Velferðarstefnudeginum var leitast við að svara þeim spurningum hvaða árangri hafi náðst með tilkomu stefnunnar, hvaða tækifæri og áskoranir felist í innra og ytra umhverfi sem kalla á breyttar áherslur í starfi velferðarsviðs. Þá var leitast við að skilgreina hvaða verkefni eigi að leggja áherslu á næstu árin, út frá helstu áherslum velferðarstefnunnar.
Innreið gervigreindar er eitt af því sem einkennt hefur undanfarin ár og er þegar farið að hafa áhrif á störf fólks í velferðarþjónustu sem og annars staðar. Það var því vel við hæfi að gestur vinnudagsins var Brynjólfur Borgar Jónsson, stofnandi Datalab, fyrirtækis sem meðal annars veitir ráðgjöf á sviði gervigreindar. Hann var með áhugavert erindi um gervigreind og talaði meðal annars út frá því að allt fólk er nú komið með sinn eigin aðstoðarmann í vasann. Nú sé bara spurning hvernig eigi að nýta hann í starfi.
Fyrr í mánuðinum höfðu stjórnendur af velferðarsviði komið saman og unnið sambærilega vinnu sem sneri að velferðarstefnunni. Afrakstur beggja daga verður nýttur til að smíða nýja aðgerðaáætlun sem gildir frá 2026–2030.
Hlutu viðurkenningu fyrir eftirtektarverða frammistöðu í starfi
Í lok dags voru hvatningarverðlaun velferðarráðs afhent en þau eru veitt árlega fyrir
eftirtektaverða alúð, þróun eða nýbreytni í velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar. Starfsfólki sviðsins gafst kostur á að tilnefna einstakling, starfsstað, hóp eða verkefni til verðlaunanna. Markmiðið með veitingu hvatningarverðlaunann er að skapa hvetjandi vinnustaðamenningu og vekja athygli á gróskumiklu starfi í velferðarmálum Reykjavíkurborgar, auk þess að stuðla að aukinni nýbreytni og þróunarstarfi.
Í flokki einstaklinga hlaut Mahmoud F. M. Abusaada, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Droplaugarstöðum, hlaut verðlaunin í flokki einstaklinga. Droplaugarstaðir hlutu verðlaunin í flokki starfsstaða, innleiðing farsældarlaganna í Reykjavík hlaut verðlaunin í flokki verkefna. Að lokum fékk Edda Ólafsdóttir félagsráðgjafi viðurkenningu fyrir farsælt starf í þágu velferðarmála.
Fjölmargar athyglisverðar tilnefningar bárust valnefndinni og valdi nefndin úr þeim tilnefningum sem bárust. Í heildina voru 49 einstaklingar, hópar eða verkefni tilnefnd, þar af voru 22 tilnefndir í flokknum einstaklingar, 13 tilnefndir í flokknum hópar/starfsstaðir og 14 tilnefndir í flokknum verkefni.