Þrír öflugir stjórnendur taka við nýjum hlutverkum á velferðarsviði

Sigþrúður Erla Arnardóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri ráðgjafarþjónustu á skrifstofu velferðarsviðs. Hún gegndi áður starfi framkvæmdastjóra Vesturmiðstöðvar. Við starfi framkvæmdastjóra tekur Styrmir Erlingsson, framkvæmdastjóri Rafrænnar miðstöðvar, og mun hann gegna báðum störfum. Þá hefur Berglind Magnúsdóttir verið ráðin skrifstofustjóri öldrunarmála á skrifstofu velferðarsviðs. Öll munu þau sitja í framkvæmdastjórn velferðarsviðs.
Öll hafa þau Sigþrúður, Styrmir og Berglind umfangsmikla reynslu af störfum í velferðarþjónustu og hafa öll tekið þátt í stefnumótunarvinnu sviðsins á undanförnum árum.
Skrifstofustjóri ráðgjafarþjónustu
Skrifstofustjóri ráðgjafarþjónustu stýrir og ber faglega ábyrgð á ráðgjafaþjónustu borgarinnar, málefnum barna, fjölskyldna, virkni og ráðgjafar. Skrifstofustjóri ber jafnframt ábyrgð á stefnumótun, heildstæðri þróun, samhæfingu, frumkvæði og nýbreytni í þjónustunni ásamt virku eftirliti með framkvæmd og gæðum í þjónustunni. Stjórnandinn ber einnig ábyrgð á innleiðingu laga um farsæld barna og þjónustu við börn og fjölskyldur í þéttu samstarfi við skóla- og frístundasvið borgarinnar, hagsmunaaðila og aðra sem koma að þjónustunni.
Sigþrúður er með BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, MA gráðu í klínískri sálfræði, fjölskylduráðgjöf og sáttarmiðlun frá Pepperdine University og hefur auk þess lokið rekstrar- og viðskiptanámi frá Háskóla Íslands, tekið áfanga í vinnusálfræði og lokið tveggja ára námi í hugrænni atferlismeðferð frá Háskóla Íslands. Undanfarin 11 ár hefur Sigþrúður gegnt stöðu framkvæmdastjóra Vesturmiðstöðvar. Áður var hún deildarstjóri sérfræðisviðs hjá þjónustumiðstöðinni ásamt því að vera starfandi framkvæmdastjóri í afleysingu og þar áður var hún sviðsstjóri sérfræðisviðs hjá Miðgarði. Sigþrúður hefur þegar hafið störf.
Framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar
Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á þjónustu, rekstri, skipulagi og mannauði Vesturmiðstöðvar og þeim starfseiningum sem heyra undir hana. Á Vesturmiðstöð er veitt félagsleg ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna, fatlaðs fólks, eldra fólks auk annarrar velferðarþjónustu s.s heimastuðningur og heimahjúkrun. Miðstöðin er leiðandi í þjónustu við heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir, umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk. Á Vesturmiðstöð sameinast velferðarþjónusta og skóla- og frístundaþjónusta í nærumhverfi barna, ungmenna og fjölskyldna. Undir miðstöðina heyra 12 starfseiningar og rúmlega 300 starfsmenn.
Styrmir er með MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu ásamt BA-gráðu í stjórnmálafræði. Hann hefur starfað sem stafrænn leiðtogi, verkefnastjóri og ráðgjafi á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis, á skrifstofu velferðarsviðs og á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Styrmir hefur verið framkvæmdastjóri Rafrænnar miðstöðvar frá stofnun hennar í byrjun árs 2022. Styrmir tekur við sem framkvæmdastjóri Vesturmiðstöðvar þann 1. maí.
Skrifstofustjóri öldrunarmála
Undir skrifstofu öldrunarmála heyrir meðal annars samþætt þjónusta heimahjúkrunar og heimastuðnings, hjúkrunarheimili, þjónustuíbúðir, dagdvalir, matarþjónusta og félagsstarf. Mikil þróun á sér stað í þjónustu við eldra fólk og ber skrifstofustjóri öldrunarmála ábyrgð á að leiða þá þróun og faglegt starf. Skrifstofustjóri hefur yfirumsjón með verkefnum skrifstofunnar og stýrir forgangsröðun þeirra.
Berglind er með embættispróf í sálfræði (cand.psych) frá Århus Universitet og hefur auk þess lokið tveggja ára námi í hugrænni atferlismeðferð og stjórnunar- og leiðtoganámi frá Bloomberg Harvard Leadership Initiative. Berglind hefur umfangsmikla reynslu af öldrunarmálum og starfaði áður á velferðarsviði, sem skrifstofustjóri þjónustu heim og síðar sem skrifstofustjóri öldrunarmála. Undanfarið hefur hún starfað hjá heilbrigðisráðuneytinu sem verkefnastjóri verkefnisins Gott að eldast þar sem hún ber ábyrgð á gerð og innleiðingu aðgerðaráætlunar um þjónustu við eldra fólk. Berglind hefur störf í lok maí.