Þakið ætlaði af þegar lagið Partýbær eftir Ham var flutt

Landsmót skólahljómsveita í Vesturbænum

Ríflega 200 börn frá níu skólahljómsveitum og tónlistarskólum fjölmenntu á landsmóti skólahljómsveita núna um helgina. Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar undir stjórn Inga Garðars Erlendssonar var gestgjafi mótsins sem fram fór í Melaskóla, Hagaskóla og í Háskólabíói.

Mikil stemning og kraftmikill flutningur

Mikil stemning var á lokatónleikum mótsins í Háskólabíói á sunnudaginn og ætlaði þakið að rifna af bíóinu þegar lokalag tónleikanna, Partýbær eftir Ham, hljómaði í kraftmiklum flutningi 200 barna lúðrasveitar.

Samband íslenskra skólalúðrasveita (SÍSL) hefur frá árinu 1969 haldið landsmót fyrir skólahljómsveitir landsins. Sveitirnar eru aldurskiptar í A, B og C sveitir og hver hópur hefur kost á að fara á landsmót annað hvert ár. Að þessu sinni voru það nemendur úr B-sveitum, börn í 6. og 7. bekk frá níu skólahljómsveitum alls staðar að af landinu, sem mættu í Vesturbæinn.

Hollt að spila í stórum hljómsveitum

„Það er félagslega og tónlistarlega mjög gott að taka þátt í svona mótum. Það myndast ný vináttusambönd við nemendur í öðrum hljómsveitum. Það er svo gaman og hollt fyrir alla að fá að æfa og spila í svona stórum hljómsveitum. Þetta er ómetanleg reynsla fyrir nemendur, eflir sjálfstraust og sviðsreynslu sem nýtist þeim áfram út í lífið,“ segir Linda Margrét Sigfúsdóttir, verkefnastjóri landsmóta SÍSL.

Landsmót skólahljómsveita í Vesturbænum