Sýndar-vatnsleikfimi í Sundhöll Reykjavíkur

Sýndarvatnsleikfimi er á skjá þar sem þjálfari fer í gegnum æfingarnar með þátttakendum.
Sýndarvatnsleikfimi er á skjá þar sem þjálfari fer í gegnum æfingarnar með þátttakendum.

Í morgun var í fyrsta sinn boðið upp á nýja tegund af líkamsrækt svokallaða sýndar-vatnsleikfimi í innilauginni í Sundhöll Reykjavíkur. 

Sýndar-vatnsleikfimin eða Hydrohex verður í boði alla daga vikunnar og geta öll tekið þátt sem vilja. Boðið verður upp á tíma með léttum og skemmtilegum æfingum yfir í krefjandi og kraftmiklar æfingar. 

Æfingar fyrir öll

Sýndar-vatnsleikfimin er frábrugðin hefðbundinni vatnleikfimi að því leyti að þjálfarinn gefur fyrirmæli á myndbandi sem birtist á skjá í innilauginni. Í hverjum tíma eru ólíkar áherslur, kraftur, þol, liðleiki og dans. Tímarnir eru auglýstir á Facebook og á upplýsingaskjám í afgreiðslu Sundhallarinnar og á vefsíðu Sundhallar Reykjavíkur

Sundleikfimin sem hefur verið í boði í Sundhöllinni heldur áfram óbreytt eins og verið hefur.

Bæði skemmtilegt og lifandi

Sýndarvatnsleikfimi - styrkleikar
Mismunandi styrkleikar eru á æfingunum í sýndar-vatnsleikfiminni og þjálfarinn í myndbandinu leiðbeinir þátttakendum.

Snorri Örn Arndalsson forstöðumaður Sundhallarinnar segir það gleðilegt að geta boðið upp á fjölbreyttari dagskrá í sundlauginni. „ "Við erum ótrúlega spennt að bjóða upp á nýja tegund sundleikfimi hjá okkur. Hydrohex er spennandi nýjung sem hefur reynst mjög vel á Norðurlöndum og gefur fjölbreyttum gestahópi Sundhallarinnar tækifæri til að finna hreyfingu við sitt hæfi. Tímarnir verða ókeypis og gestum verður frjálst að taka þátt, hvort sem er í skipulögðu tímunum eða þeim opnu. Það er líka gaman að segja frá því að við erum nokkur búin að prófa þetta í lauginni og við getum því sagt að þetta er mjög skemmtilegt og lifandi," segir Snorri.

Stundataflan er í gildi út ágúst. Þann 1. september tekur svo við vetrardagskrá þar sem boðið verður upp reglulega tíma alla vikuna. 

Komdu og prófaðu eitthvað alveg nýtt og spennandi í vatninu – þú þarft bara að mæta!.