Styttri boðleiðir og aukin skilvirkni með skipulagsbreytingum
Skipulagsbreytingar á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, sem samþykktar voru í borgarráði í maí og munu auka skilvirkni og stytta boðleiðir innan borgarkerfisins, eru að taka á sig mynd. Embætti skipulags- og byggingarfulltrúa hafa verið sameinuð og tveir nýir deildarstjórar hafa tekið til starfa og verkefni tengd lóðasamningum flutt frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Þá tók ný skrifstofa framkvæmda, viðhalds og eignaumsjónar til starfa í dag.
Breytingarnar sem borgarráð samþykkti í vor fela meðal annars í sér sameiningu á embættum skipulags- og byggingarfulltrúa, flutningi eignaskrifstofu frá fjármála- og áhættustýringarsviði og lögfræði og samningateymi frá skrifstofu borgarstjóra og borgarritara til umhverfis- og skipulagssviðs. Er breytingunum meðal annars ætlað að einfalda og styrkja skipulags- og byggingaferla með styttri boðleiðum, aukinni skilvirkni, betri þjónustu og aukinni framlegð.
Í sumar hefur verið unnið að endurskipulagningu í samræmi við aukin verkefni og ný skrifstofa framkvæmda, viðhalds og eignaumsjónar tók formlega til starfa í dag, 1. september. Auglýst var eftir skrifstofustjóra fyrr í sumar og er ráðningarferli hafið. Þá fluttust í dag verkefni og starfsfólk frá eignaskrifstofu auk skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, á umhverfis- og skipulagssvið.
Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis -og skipulagssviðs er spennt fyrir komandi tímum. „Með þessum breytingum styrkist umhverfis- og skipulagssvið til muna. Ný verkefni, nýtt fólk og nýir stjórnendur munu vinna saman að því að efla þjónustu og stuðla að því að Reykjavík verði enn skilvirkari og betri borg.“
Nýir deildarstjórar
Tveir nýir deildarstjórar á skrifstofu skipulags- og byggingamála hafa nú þegar tekið til starfa og munu gegna lykilhlutverki í áframhaldandi uppbyggingu nýrrar skrifstofu
Hjördís Sóley Sigurðardóttir hefur verið ráðin í nýtt starf deildarstjóra skipulagsmála. Hjördís hefur stýrt húsnæðisátaki borgarinnar frá árinu 2024 og kemur að starfinu með víðtæka menntun og reynslu. Hún er með BA gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands, MSc gráðu í arkitektúr frá Delft University of Technology og MSc gráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur jafnframt starfað sjálfstætt sem arkitekt og var einn stofnenda Yddu arkitekta.
Líf G. Gunnlaugsdóttir hefur verið ráðin í nýtt starf deildarstjóra umbóta og upplýsingamála. Líf hefur undanfarna mánuði leitt umbótaverkefni á Verkefnastofu sviðsins en býr að fjölbreyttri menntun og starfsreynslu. Hún er lögfræðingur og verkefnastjóri að mennt og hefur víðtæka reynslu af stjórnunar- og umbótastörfum. Hún starfaði meðal annars hjá Skattinum á árunum 2014–2023 og hjá Ríkisendurskoðun á stjórnsýslu- og lögfræðisviði árin 2023–2024.