Borgarráð samþykkti í dag ráðningu Steins Jóhannssonar í starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Steinn hefur gegnt stöðu rektors Menntaskólans við Hamrahlíð undanfarin sex ár.
Síðustu sex ár hefur Steinn Jóhannsson gegnt stöðu rektors Menntaskólans við Hamrahlíð og var þar áður konrektor við sama skóla í eitt ár. Þar áður var hann skólameistari Fjölbrautaskólans í Ármúla í fimm ár. Frá 2002 til 2012 var Steinn forstöðumaður kennslusviðs Háskólans í Reykjavík en áður kenndi hann í bæði grunn- og framhaldsskóla og sinnti auk þess stundakennslu við Háskóla Íslands.
Steinn er með meistaragráðu í sagnfræði frá University of Louisiana, Monroe og bakkalárgráðu frá sama skóla í stjórnmálafræði og sögu. Hann lauk uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands og lagði auk þess stund á doktorsnám í uppeldis- og menntunarfræði við sama skóla.
Starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar var auglýst til umsóknar í nóvember eftir að tilkynnt var að Helgi Grímsson myndi hætta sem sviðsstjóri um áramót til að stýra umbótaverkefni í mennta- og barnamálaráðuneytinu. Alls bárust 22 umsóknir um stöðuna en fjórir umsækjendur drógu umsókn sína til baka. Í samræmi við reglur um ráðningar borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður var skipuð ráðgefandi hæfnisnefnd.
Í lokaskýrslu hæfnisnefndar til borgarráðs segir að það sé sameiginlegt mat hæfnisnefndar að Steinn Jóhannsson sé best til þess fallinn að taka við starfi sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. „Það byggir á yfirgripsmikilli reynslu hans af stjórnun og rekstri menntastofnana, brennandi áhuga og þekkingu á skóla- og frístundamálum og jákvæðri og skýrri framtíðarsýn á hin brýnu viðfangsefni sviðssins.”