Starfsfólk Reykjavíkurborgar ánægt í starfi

Stjórnsýsla

Reykjavíkurborg Ragnar Th. Sigurðsson
Séð yfir Tjörnina og Reykjavík frá horni Tjarnargötu og Skothúsvegar

Ný viðhorfskönnun meðal starfsfólks Reykjavíkurborgar sýnir að 88% starfsfólks Reykjavíkurborgar er ánægt í starfi. Niðurstöður sýna að á heildina litið upplifir starfsfólk starfsstaðinn Reykjavíkurborg sem góðan og metnaðarfullan vinnustað sem hefur góða ímynd. Þar ríkir góður starfsandi og starfsfólk er ánægt með þann sveigjanleika sem það hefur í vinnunni og 94% starfsfólks telur að það hafi jákvæð áhrif á samfélagið í starfi sínu.

Borgin tók þátt í könnuninni Stofnun ársins sem lögð var fyrir í nóvember og desember á síðasta ári. Alls var könnunin send út til um 35 þúsund þátttakenda og af þeim svöruðu 17.383 þar af voru 5.534 starfsfólk Reykjavíkurborgar.

Á heildina litið eru niðurstöður könnunarinnar mjög jákvæðar og hækkun á 9 þáttum af 10 fyrir borgina. Dregið hefur úr upplifun á álagi, 88% starfsfólks Reykjavíkurborgar líður vel í starfi, 90% telja að allt starfsfólk njóti jafnræðis óháð aldri, kyni, uppruna, kynhneigð,  trúar- eða lífsskoðunum og 88% starfsfólks segist vera stolt af starfsstaðnum sínum.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar virðist ánægt með stjórnun á sínum starfsstað en 83% starfsfólks telja að vinnustað sínum sé vel stjórnað og 86% segjast bera fullt traust til stjórnenda á sínum starfsstað og 86% segjast fá stuðning og hvatningu frá næsta yfirmanni.

Reykjavíkurborg hefur mælt viðhorf starfsfólks til starfsumhverfis, samskipta og stjórnunarhátta reglulega frá árinu 2005 og nýtt niðurstöður markvisst til að skapa enn betra starfsumhverfi fyrir hæfileikaríkt og metnaðarfullt starfsfólk. Niðurstöður könnunarinnar sýna að aðgerðir skila árangri en áfram eru sóknarfæri til að nýta niðurstöðurnar. Framundan eru kynningar á starfsstöðum borgarinnar þar sem starfsfólki verða kynntar niðurstöður fyrir hvern starfsstað, markmið sett og unnar aðgerðaáætlanir.  

Nánar um niðurstöður