Skora á ríkið að móta stefnu í málefnum heimilislausra einstaklinga

Hópur fólk stendur í röð, þau eru öll í félagsmálanefndum sinna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Félagsmálanefndir sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skora á ríkið að móta stefnu til framtíðar í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Áskorunin kemur fram í sameiginlegri ályktun og leggja nefndirnar áherslu á að ríkið komi meira að fjármögnun málaflokksins. Sveitarfélögin í Kraganum eru hvert og eitt með samstarfssamning við Reykjavíkurborg um nýtingu á neyðarþjónustu borgarinnar.

Mikill samhljómur var meðal félagsmálanefndanna sem komu saman á sameiginlegum fundi í Hlégarði í Mosfellsbæ síðastliðinn föstudag. Þar var málaflokkur heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir til umræðu. Á fundinum voru fulltrúar félagsmálanefnda sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu – Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarness, sviðsstjórar félagsmálasviða og annað starfsfólk sveitarfélaganna. Í lok fundar gerðu nefndirnar sameiginlega ályktun, þar sem þær skora á ríkið að móta stefnu í málaflokknum til framtíðar og leggja áherslu á að ríkið komi meira að fjármögnun hans. Í ályktuninni er áhersla lögð á að unnið verði áfram að framþróun málaflokksins hjá hverju og einu sveitarfélagi, þar sem meðal annars verði stuðst við skýrslu um málefni heimilislausra sem gefin var út í mars 2023 á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Markmiðið að skapa sameiginlega framtíðarsýn

Markmið fundarins var að hefja samtal um sameiginlega framtíðarsýn í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Soffía Hjördís Ólafsdóttir, deildarstjóri málaflokksins hjá Reykjavíkurborg, hélt kynningu og fór meðal annars yfir aðgerðaáætlun sem samþykkt var einróma í borgarstjórn í janúar síðastliðnum. Hún fór yfir þann stuðning og þjónustu sem Reykjavíkurborg veitir og ræddi mikilvægi þess að sveitarfélög hefðu sama skilning á markhópi þjónustunnar, til að tryggja sértækan stuðning og lágþröskuldaþjónustu. Hópurinn sé fjölbreyttur en innan hans sé fólk með vímuefnavanda, geðrænan vanda, og / eða þroskahömlun, býr við óstöðugleika í búsetu eða heimilisleysi. Oft einkenni hópinn jafnframt þung og löng áfallasaga. Að auki fór Soffía Hjördís yfir þá þætti sem hafa áunnist frá því Reykjavíkurborg markaði sér fyrst stefnu í málaflokknum árið 2019, svo sem fjölgun á sértækum úrræðum. Soffía ræddi jafnframt samstarf Reykjavíkurborgar við önnur sveitarfélög sem reynst hafi vel en yfir fjórðungur gesta neyðarskýla eru með lögheimili í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík. 

Ályktunin sveitarfélaganna í heild er svohljóðandi: 

Miklar framfarir hafa átt sér stað í þjónustu við heimilislausa einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir á undanförnum árum. Aukin áhersla hefur verið lögð á kortlagningu og greiningu á notendahópi, aukið notendasamráð og nýsköpun í þróun á þjónustuleiðum fyrir einstaklinga með mismunandi þjónustuþarfir. Reykjavíkurborg hefur leitt þá vinnu og verið styðjandi við önnur sveitarfélög. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að Reykjavíkurborg ber meginþungann af kostnaði vegna málaflokksins og hefur leitast eftir aukinni samvinnu annarra sveitarfélaga.

Sveitarfélögin í Kraganum eru hvert og eitt með samstarfssamning við Reykjavíkurborg um nýtingu á neyðarþjónustu. Þá hafa þau unnið að uppbyggingu þjónustunnar í málaflokknum í sínum sveitarfélögum. Brýnt er að sveitarfélög fari í formlegt samstarf um aðra þjónustu sem byggir á sérhæfingu og þekkingu sem myndast hefur á undanförnum árum hjá borginni, svo sem hjá Vettvangs- og ráðgjafateymi. 

Sameiginlegur fundur félagsmálanefnda á höfuðborgarsvæðinu skorar á ríkið að móta stefnu í málaflokknum til framtíðar og leggur áherslu á að ríkið komi meira að fjármögnun hans. Þá leggur fundurinn einnig áherslu á að unnið verði áfram að framþróun málaflokksins hjá hverju og einu sveitarfélagi og þar verði m.a. stuðst við skýrslu um málefni heimilislausra sem gefin var út í mars 2023 á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.