Samningur við Samtökin ’78 endurnýjaður til þriggja ára
Reykjavíkurborg hefur gert þriggja ára samning við Samtökin ’78. Í honum felst hinsegin fræðsla fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, nemendur í 3., 6. og 9. bekk grunnskóla og innan íþróttafélaga borgarinnar. Í samningnum felst jafnframt framlag vegna ráðgjafarþjónustu til að sinna stuðningsviðtölum fyrir hinsegin fólk og aðstandendur þeirra.
Vinna að sýnileika og viðurkenningu
Markmið Samtakanna '78 er að vinna að sýnileika og viðurkenningu hinsegin fólks og berjast fyrir því að það njóti fyllstu réttinda í íslensku samfélagi. Samtökin leitast við að breyta fordómum, hroka og andúð í garð hinsegin fólks í viðurkenningu, sátt og mannvirðingu, með ráðgjöf, margvíslegum stuðningi og fræðslu.
Þessi markmið samtakanna samræmast markmiðum Reykjavíkurborgar, eins og meðal annars má sjá í mannréttindastefnu borgarinnar. Borgarráð samþykkti að endurnýja samninginn á fundi sínum 4. september síðastliðinn.
Stolt af samstarfinu við Samtökin ´78
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Kári Garðarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78, skrifuðu undir samninginn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Þau lýstu bæði ánægju með nýjan samning og sagði Kári stuðninginn samtökunum afar mikilvægan. Borgin hafi lengst allra sveitarfélaga verið með þjónustusamning við samtökin. „Þetta er mikilvæg þjónusta fyrir hinsegin fólk en jafnframt fyrir aðstandendur, kennara og aðra sem vilja standa sig vel og stuðla að því að búa til gott samfélag, sem er auðvitað okkar markmið. Ég er stolt af þessum samningi og þessu samstarfi sem hefur verið öflugt og gott,“ sagði borgarstjóri við undirritunina.
Stutt við ráðgjafarþjónustu samtakanna
Í samningnum felst ákveðið framlag vegna ráðgjafarþjónustu og skuldbinda samtökin sig til að bjóða hinsegin fólki félags- og ráðgjafaþjónustu frá fagfólki með sérþekkingu á málefnum hinsegin fólks. „Mikilvægur hluti af okkar starfi er að bjóða upp á gjaldfrjálsa lágþröskulda ráðgjöf fyrir okkar fólk, þeirra aðstandendur og aðra sem þurfa. Þetta er mikið nýtt og skiptir okkur öllu máli að geta boðið upp á slíka ráðgjöf,“ segir Kári.
Samningurinn er gerður til þriggja ára og er árlegur kostnaður vegna hans 15.112.000 króna.