Samningaviðræður um bensínstöðvalóðir samræmast í meginatriðum hagsmunum Reykjavíkurborgar
Samkvæmt úttekt Innri endurskoðunar og ráðgjafar var ákvörðun borgarráðs um að ganga til samningaviðræðna um lokun bensínstöðva í íbúðahverfum í samræmi við málefnaleg meginmarkmið Reykjavíkurborgar um þróun byggðar og stefnu borgarinnar í loftslagsmálum. Fulltrúar í borgarráði höfðu greinargóðar upplýsingar um málið þegar það var tekið fyrir og einróma samþykkt. Í úttektinni eru lagðar til 12 tillögur að umbótum til að skerpa frekar á verklagi um starfs- og stýrihópa, opinber samningateymi og reglum um úthlutun lóða og lóðasamninga. Borgarráð samþykkti í morgun að senda umbótatillögurnar til meðferðar á viðeigandi sviðum.
Borgarstjórn ákvað á fundi sínum 7. maí 2024 að fela Innri endurskoðun og ráðgjöf Reykjavíkurborgar (IER) að gera úttekt á aðdraganda og fyrirkomulagi samningaviðræðna Reykjavíkurborgar við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík. Úttektin var kynnt í borgarráði í morgun.
Meginmarkmið Reykjavíkurborgar með samningaviðræðum málefnaleg
Niðurstaða IER er sú að meginmarkmið Reykjavíkurborgar með samningaviðræðum við lóðarhafa bensínstöðvalóða hafi verið málefnaleg og stuðlað að framgangi á gildandi stefnu og skipulagslegri þróun borgarinnar.
Þar er meðal annars átt við Loftslagsstefnu Reykjavíkurborgar til 2020 þar sem segir að „[M]arkmið verði að dælum fyrir jarðefnaeldsneyti fækki um 50% til ársins 2030 og þær verði að mestu horfnar árið 2040.“
Í úttektinni segir að einnig sé „í gögnum málsins vísað til fleiri sjónarmiða, svo sem um fækkun bensínstöðva innan eða í nágrenni við íbúðabyggð, innan miðborgar, á lóðum þar sem tækifæri eru til að þétta byggðina, styrkja þjónustu og styðja við uppbyggingu Borgarlínu.“
IER gerir þær athugasemdir að í framsetningu meginmarkmiðanna hafi verið veikleikar og að í undirbúningi samningaviðræðna hefði átt að taka fleiri sjónarmið til skoðunar en gert var. Farið er ítarlega ofan í stefnumörkun og helstu ákvarðanir Reykjavíkurborgar með tilliti til samningaviðræðnanna í úttektinni.
Hagsmunir Reykjavíkurborgar tengjast meginmarkmiðum
Til að meta hvort hagsmunir Reykjavíkurborgar hafi verið nægjanlega tryggðir skoðaði IER þau samkomulög sem samþykkt hafa verið í borgarráði með tilliti til þeirra markmiða sem lögð voru til grundvallar í samningaviðræðunum.
„Í upphafi samningaviðræðnanna var lagt af stað með þau meginmarkmið sem samþykkt voru samhljóða í borgarráði 9. maí 2021.“ Þótt IER hafi vissar athugasemdir um framsetningu markmiðanna segir í úttektinni „ljóst að meginmarkmiðin sem voru til grundvallar voru málefnaleg og til þess fallin að hrinda í framkvæmd þeirri skipulagslegu sýn sem birtist í gögnunum.“
IER segir að með samkomulögunum hafi náðst ákveðinn árangur í átt að því að hrinda aðalskipulagi Reykjavíkurborgar í framkvæmd. Þá hafi borgin verið nær þeirri skipulagssýn sem lýst var í skýrslunni Stefna um orkustöðvar fyrir einkabíla.
IER gerir athugasemdir við uppleggið og aðferðafræðina sem lagt var upp með í borgarráði en óvissa varðandi uppbyggingu á einstaka lóðum valdi því að ekki sé hægt að fullmeta áhrif samkomulaganna á þessum tímapunkti.
Að mati IER munu áform Reykjavíkurborgar um 50% fækkun bensíndæla ekki nást á næstu árum. Sérstök samkomulög við olíufélögin eru ekki uppbyggingasamningar en eins og áður þurfa áætlanir um uppbyggingu að fara í gegnum skipulagsferli hjá borginni áður en framkvæmdir geta hafist.
Þekking borgarráðs
Að mati IER höfðu fulltrúar í borgarráði 9. maí 2021, þegar samningsmarkmið vegna viðræðna um bensínstöðvalóðir voru samhljóða samþykkt, ítarleg gögn og greinargóðar upplýsingar um samningaviðræðurnar og tillögur að þeim.
Skipulagsleg sýn og áhersla á fækkun bensínstöðva/dæla hafi legið fyrir með skýrum hætti og „ganga verði út frá því að borgarráð hafi þekkt vel mun á byggingaréttargjaldi og svo mögulegu markaðsverði lóðaréttinda, eða að minnsta kosti að ekki væri nauðsynlega samhengi þarna á milli.“
„Borgarráð hafi með öðrum orðum mátt vita að möguleg uppbyggingaáform á einstökum lóðum gætu falið í sér fjárhagslega hvata fyrir lóðarhafa til að samþykkja breytta nýtingu á bensínstöðvalóðunum og að sá hvati gæti, eftir atvikum, verið umtalsvert verðmætari en eingöngu niðurfelling byggingaréttargjalda.“
Viðbrögð samninganefndar
Í viðbrögðum samninganefndar Reykjavíkurborgar segir „[B]rýnt er að undirstrika að ekki var um að ræða úthlutun á takmörkuðum og/eða fjárhagslegum gæðum. Olíufélögin voru lóðarhafar á umræddum lóðum og á flestum lóðanna voru lóðarleigusamningar í gildi og í sumum tilvikum til langs tíma.“ Tekur nefndin fram að ekki lágu fyrir áætlanir um byggingamagn þar sem skipulagsferli hafði ekki farið fram.“
Samninganefndin gagnrýnir ennfremur ábendingar IER um að hún hefði átt að taka til athugunar hvort til greina kæmi að beita eignarnámi ef samningar næðust ekki. Að mati nefndarinnar hefði það hvorki samræmst lögbundnu ferli né góðum samningaháttum.
Þá segir samninganefndin samanburð á byggingaréttargjaldi og markaðsverði lóðaréttinda ósanngjarna. Í viðbrögðum við þeirri gagnrýni tekur IER undir að samanburðurinn geti reynst erfiður og segir að því hafi sérstakir fyrirvarar verið gerðir í þeim efnum.
Umbætur og eftirfylgni
Úttektarteymi IER setur fram í skýrslu sinni 12 tillögur að umbótum sem miða að því að bæta starfsemi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Tillögurnar verða grundvöllur eftirfylgnikönnunar sem IER mun framkvæmda á næsta ári. Borgarráð samþykkti í morgun að setja umbótatillögurnar í meðferð innan borgarinnar.
Í úttektarteyminu voru Ingunn Ólafsdóttir starfandi innri endurskoðandi, Kristín Henley Vilhjálmsdóttir skrifstofustjóri IER, Trausti Fannar Valsson dósent í stjórnsýslurétti og Víðir Smári Petersen prófessor í fjármunarétti, báðir starfandi við Lagadeild Háskóla Íslands og til ráðgjafar var Sigríður Guðmundsdóttir sjálfstætt starfandi innri endurskoðandi. Auk þess að greina aðdraganda samningaviðræðnanna er í úttektinni farið ofan í þá samninga sem samþykktir hafa verið í borgarráði, kannað hvort málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar samningunum og hvort hagsmunir borgarinnar hafi verið nægilega tryggðir við samningagerðina.