Sammála um að hafa kærleikann að leiðarljósi
Forvarnardagurinn 2025 var settur í Vogaskóla í morgun, með málþingi undir yfirskriftinni: Samvera – að tilheyra – tengsl. Þetta er í tuttugasta sinn sem Forvarnardagurinn er haldinn. Það er gert á hverju hausti og er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk grunnskóla og 1. bekk menntaskóla.
Á málþinginu í dag byrjuðu ungmenni úr 9. bekk Vogaskóla á því að hlusta á erindi frá Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, sem talaði um mikilvægi þess að ná tökum á skjánotkun. Hún setti fram þá áleitnu spurningu hvað við gætum gert við allan þann tíma og þá athygli sem tækin taka frá okkur og hversu miklu betur gæti okkur liðið ef við ættum fleiri nærandi stundir. Hún rifjaði upp þá skelfilegu atburði þegar Bryndís Klara Birgisdóttir lét lífið í kjölfar hnífstunguárásar á Menningarnótt í fyrra. Eftir þá atburði varð hreyfingin riddarar kærleikans til. Forsetinn hvatti viðstödd til að vera riddarar kærleikans „því heimurinn þarf sárlega á fleirum að halda sem mæta til leiks með kærleika í brjósti“.
Áhrifavaldar í eigin lífi
María Heimisdóttir landlæknir tók undir með forseta um mikilvægi þess að hafa lýðheilsu og heilbrigðismál á oddinum og tala fyrir kærleika og mildi, bæði gagnvart sjálfum okkur og fólkinu sem er okkur samferða í lífinu. „Kærleiksrík samskipti, sem einkennast af trausti og mildi hvert gagnvart öðru, er ótrúlega mikilvægt fyrir heilsu og vellíðan okkar allra.“ Hún fór yfir verndandi þætti í lífi barna og ungmenna og benti viðstöddum á að þau eru sjálf áhrifavaldar í eigin lífi. „Þið takið ákvarðanir á hverjum einasta degi sem geta haft úrslitaáhrif á það hvernig lífið ykkar verður alla ævi,“ sagði hún.
Langflottasta unga kynslóðin hingað til
Í erindi sínu lagði Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri mikla áherslu á mikilvægi samstöðu í samfélaginu. Þá sagði hún rannsóknir gefa til kynna að góður árangur hafi náðst á undanförnum árum þegar kemur að lífi barna og halda þurfi áfram á þeirri braut. „Við erum stolt af þeim árangri sem við höfum séð hér í borginni. Þið eruð langflottasta unga kynslóð sem hefur verið til nokkurn tímann, klárari, heilbrigðari, duglegri. En við verðum alltaf að halda áfram og við þurfum öll að taka okkar ábyrgð þar.“ Svo beindi hún orðum sínum að fullorðnu fólki. „Ég held að við fullorðna fólkið ættum að spyrja okkur sjálf hvort við erum til staðar fyrir ungt fólk í dag. Erum við til staðar fyrir börn vina okkar? Eða unglinga sem við sjáum og við ættum kannski að gefa okkur að?“
Hundruð vina í símanum en enginn í raunheimum
Raddir ungmenna fengu líka að heyrast á málþinginu. Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir frá Jafningjafræðslu Hins hússins flutti erindi og sagði frá því að einmanaleiki hafi skotið djúpum rótum hjá ungmennum í dag. Sum þeirra eigi hundruð vina í símanum en enga í raunheimum. „Þau draga sig í hlé frá raunheimum og þannig verða þau viðkvæm fyrir öllu því sem netheimar hafa uppá að bjóða.“ Við þessu þurfi samfélagið að bregðast, með aukinni jafningjafræðslu og auknum stuðningi og skilningi foreldra.
Þá las Eva Karítas Bóasdóttir, nemandi við Verslunarskóla Íslands, upp svör nemenda í 9. bekk sem tóku þátt í Forvarnardeginum í fyrra, varðandi það sem þau telja skipta mestu máli til að lifa góðu og heilbrigðu lífi. Að lokum var sýnd kveðja frá þeim Emblu Backman og Kára Einarssyni, sem taka þátt í hreyfingunni riddarar kærleikans, sem hefur að markmiði að virkja kærleikann í samfélaginu, minnka ofbeldi og bæta líðan með samtali og aðgerðum, þvert á kynslóðir og hópa.
Ungmenni hvött til að taka þátt í samkeppni
Nemendum sem taka þátt í Forvarnardeginum gefst tækifæri til að senda inn verkefni í verðlaunaleik Forvarnardagsins. Áherslan er á áskoranir og lausnir sem tengjast símum, skjátækjum og samfélagsmiðlum. Forseti Íslands veitir verðlaun fyrir verkefnin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu en verðlaunahafar fá jafnframt veglegt gjafabréf frá 66°N. Nánari upplýsingar um verðlaunaleikinn er að finna í þessu myndbandi og á heimasíðu Forvarnardagsins.
Forvarnardagurinn samvinnuverkefni margra
Í upphafi málþingsins bauð Aðalsteinn Hjartarson, aðstoðarskólastjóri Vogaskóla, gesti velkomna fyrir hönd skólans. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá Landlækni, stýrði málþinginu.
Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Planet Youth, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta, Ríkislögreglustjóri og Heimili og skóli.