Samkomulag um stuðning við frumkvöðlastarf kvenna endurnýjað
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttismála, Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur, undirrituðu samkomulag um áframhaldandi starfsemi Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna í gær.
Hlutverk lánatryggingasjóðsins er að styðja við bakið á konum sem eiga og reka smærri fyrirtæki, að auka aðgengi kvenna að fjármagni, að fjölga störfum og stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu.
Sjóðurinn veitir ábyrgðir á lánum samkvæmt samþykktum og lánareglum hans en skilyrði er að konur séu í meirihluta í stjórn og eigendahópi fyrirtækis eða verkefnis. Með samkomulaginu er starfsemi sjóðsins tryggð til næstu fjögurra ára.
„Starfsemi sjóðsins stuðlar í senn að aukinni atvinnustarfsemi kvenna og nýsköpun í atvinnulífinu. Hvort tveggja eru mikilvægir þættir í áframhaldandi uppbyggingu nútímalegs atvinnulífs í landinu. Með samkomulaginu leggja stjórnvöld sitt lóð á vogarskálarnar til að stuðla að þessari jákvæðu þróun,“ segir Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Tækifæri til að þróa áfram hugmyndir
Lánatryggingasjóðurinn var fyrst stofnaður árið 1997 en lagðist af um tíma. Hann var síðar endurvakinn og hefur verið starfræktur frá árinu 2011. Frá þeim tíma hefur Svanni veitt fjölmörgum konum stuðning til að þróa hugmyndir sínar áfram í sjálfbæran rekstur. Reynslan sýnir að stuðningur við konur í atvinnulífi hefur margföld áhrif, ekki aðeins fyrir þær sjálfar heldur fyrir samfélagið í heild.
Stjórn sjóðsins skipa þrír fulltrúar, einn frá hverjum eiganda sjóðsins. Nýskipaður formaður sjóðsins er Guðrún Tinna Ólafsdóttur, skipuð af dómsmála- og jafnréttisráðherra. Annað stjórnarfólk er Ellen Jacqueline Calmon fulltrúi Reykjavíkurborgar og Hákon Skúlason fulltrúi atvinnuvegaráðuneytisins.