Samkeppni um ljóslistaverk á Vetrarhátíð

Verk á Vetrarhátíð 2022. Listafólk: Haraldur Karlsson og Litten Nystrøm. Ragnar Th. Sigurðsson
Ljóslistaverk á Austurvelli á Vetrarhátíð 2022. Stór hvít upplýst stjarna, myrkur úti, fjólublá upplýst tré.

Reykjavíkurborg og Veitur standa  fyrir samkeppni um ljóslistaverk í almannarými borgarinnar á Vetrarhátíð 2026. Hátíðin fer fram dagana 5.–8. febrúar næstkomandi.

Vetrarhátíð í Reykjavík var fyrst haldin árið 2002 og hefur markmið hennar frá upphafi verið að lýsa upp skammdegið og bjóða íbúum og gestum að upplifa einstaka stemningu í borginni.

Markmið og áherslur

Markmið samkeppninnar er að efla nýsköpun og íslenskt hugvit sem styður við skapandi og lifandi borg.

Opin keppni

Samkeppnin er opin öllum; myndlistar-, tónlistar og ljóstæknifólki, hönnuðum, tölvunarfræðingum eða öðrum þeim sem vinna með rafmagn, ljós og list í einhverju formi. Hægt er að koma með tillögu að staðsetningu eða fá ráðgjöf frá skipuleggjendum.

Horft er til frumleika og má nota ýmiss konar efni til verksins. Hafa skal í huga að hátíðin fer fram utandyra að vetri til og mikilvægt er að tillagan taki mið af því. Kostur er ef verkið er gagnvirkt og/eða innsetning í almannarými borgarinnar.

Tvö verk verða valin og hljóta styrk að upphæð 1.000.000 krónur hvert. Upphæðin er hugsuð bæði til framkvæmdar verksins og þóknunar listafólks.

Listaverk í Ráðhúsi, Tjarnarsal, á Vetrarhátíð 2022. Hvítir "kallar" sem fengu loft í sig og dönsuðu til og frá.

Verk í Ráðhúsinu á Vetrarhátíð árið 2022. Listamaður: Katerina Blahutová.

Áherslur dómnefndar

Dómnefnd leggur áherslur á eftirfarandi þætti í mati sínu:

  • Styrkleiki heildarhugmyndar. 
  • Listrænt gildi tillögu.
  • Áhrif tillögu á almannarýmið.
  • Raunhæfni og kostnað við framkvæmd hugmyndar.

Tímarammi 

22. október 2025 // samkeppni kynnt og opnað fyrir umsóknir.

23. nóvember 2025 // umsóknarfresti lokið.

24. nóvember – 1. desember 2025 // vinna dómnefndar. 

2. desember 2025 // niðurstaða kynnt.

5.–8. febrúar 2026 // Vetrarhátíð í Reykjavík.

Skilaform og afhending

Tillögur skulu innihalda eftirfarandi: 

  • Myndefni og greinargerð sem sýna og útskýra heildarhugmynd verksins og listrænt gildi tillögu.
  • Kostnaðaráætlun vegna framkvæmdar og þóknunar sigurvegara.

Tillögum skal skila á pdf-formi eða í rafrænni framsetningu í gegnum vefsíðuna WeTransfer eða öðru sambærilegu forriti á netfangið vetrarhatid@reykjavik.is fyrir miðnætti sunnudaginn 23. nóvember 2025.

Nafnleyndar er gætt og tillögur skulu merktar með sex tölustafa auðkennisnúmeri sem þátttakendur velja sjálfir. Með tillögunni skal einnig senda skjal/nafnamiða með sama auðkennisnúmeri sem inniheldur upplýsingar um þátttakendur ásamt nafni, netfangi og símanúmeri tengiliðar hópsins. Starfsmaður dómnefndar er sá eini sem sér þær upplýsingar. Tillögu er veitt viðtaka berist hún innan tilgreinds skilafrests og nafnleyndar sé gætt.

Hægt er að senda fyrirspurnir á  vetrarhatid@reykjavik.is

Úrslit

Áætlað er að dómnefnd ljúki störfum 1. desember 2025. Þegar dómnefnd hefur formlega lokið störfum verður nafnleynd rofin og þátttakendum tilkynnt um niðurstöður dómnefndar.

Dómnefnd

  • Salóme Rósa Þorkelsdóttir, borgarhönnuður hjá skrifstofu samgangna og borgarhönnunar á Umhverfis- og skipulagssviði.
  • Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna á Listasafni Reykjavíkur.
  • Sesselja Jónasardóttir, stofnandi listahátíðarinnar List í ljósi.

Ef dómnefnd telur enga innsenda tillögu koma til greina til nánari útfærslu áskilur hún sér rétt til að hafna öllum tillögum. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að hafa samband við keppendur sem ekki hljóta verðlaun um mögulegt samstarf.

Verk á Vetrarhátíð 2023. Mynd varpað á vegg neðst við Skólavörðustíg, horft í átt að Hallgrímskirkju eftir regnbogagötunni. Myrkur, fólk á ferli.

Verk á Vetarhátíð árið 2023. Listamaður: Vala Kjarval.