Samið við rekstraraðila parísarhjóls á Miðbakka

Samið verður við Taylor ‘s Tivoli Iceland ehf. um tímabundin afnot af Miðbakka svo fyrirtækið geti rekið þar parísarhjól í sumar.
Reykjavíkurborg auglýsti þann 24. maí síðastliðinn eftir samstarfsaðila til að reka parísarhjól á Miðbakka við Reykjavíkurhöfn. Ein gild umsókn barst vegna auglýsingarinnar og var hún frá Taylor ‘s Tivoli Iceland ehf. sem rak parísarhjól á Miðbakka síðasta sumar. Faxaflóahafnir sf. er eigandi lóðarinnar en Reykjavíkurborg hefur afnotarétt af henni. Taylor ‘s Tivoli Iceland ehf. greiðir 650 þúsund krónur á mánuði fyrir afnot af lóðinni og skuldbindur sig til að hafa parísarhjólið opið almenningi án endurgjalds á Menningarnótt. Lok afnotatíma er 30. september 2025.
Byggt á góðri reynslu síðasta sumars
Reynsla af rekstri parísarhjóls á Miðbakka sumarið 2024 var góð en þá var um tilraunaverkefni til eins sumars að ræða. Parísarhjól er hugsað sem spennandi viðbót við fjölbreytt borgarlíf og skemmtilegt framhald á mikilli uppbyggingu í miðborginni. Mikill áhugi var á verkefninu í fyrra og var þá gengið til samninga við Taylor‘s Tivoli Iceland ehf, sem hafði reynslu af rekstri parísarhjóla og af rekstri tívolís á Miðbakka. Gengið var úr skugga um að búnaðurinn þyldi íslenskar aðstæður, þar með talið vindálag og jarðhræringar. Áhersla var lögð á góða hljóðvist í kringum parísarhjólið og reyndust áhyggjur af hávaða óþarfar, svo lítið heyrðist í parísarhjólinu að það mældist ekki í mælingum vegna umferðar á Geirsgötu.
Parísarhjól meðal hugmynda um haftengda upplifun
Verkefnið á rætur í hugmyndavinnu innan borgarinnar um haftengda upplifun og útivist, en settar voru fram fjölmargar hugmyndir um hvernig bæta mætti lífsgæði borgarbúa og lýðheilsu í skýrslu sem kom út síðasta haust. Kostir grænna svæða eru vel þekktir og hefur verið sýnt fram á að aðgengi að grænum svæðum bæti velferð fólks. Vaxandi umræða er um kosti þess að hafa aðgengi að vatni, eða bláum svæðum; það er hafi, ám, fossum eða vötnum. Búseta í nálægð við vatn hefur jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu og stuðlar að bættri hamingju og vellíðan og í Evrópu hafa blá svæði í auknum mæli verið viðurkennd sem aðlaðandi eiginleiki borga með tilliti til ferðaþjónustu, afþreyingar og heilbrigðs lífsstíls. Því var farið í greiningu á möguleikum til upplifunar og útivistar á strandlengjunni í Reykjavík og var parísarhjól ein fjölmargra hugmynda sem lesa má um í skýrslunni.